TVÖ ár eru liðin frá snjóflóðinu mikla á Flateyri 26. okt. 1995 þar sem 20 manns fórust. Það er nú kominn tími til að menn geri upp við sig, hvað fór úr böndum þá og hvað hefir farið úr böndum síðan. Það er enn verið að byggja svonefnda snjóvarnargarða ofan Flateyrar, og talið að því verki verði lokið í lok nóvember. Þar er verið að framkvæma verstu verkfræðimistök á Íslandi fram til þessa.
Þögnin um Flateyri

Verið er að framkvæma verstu verkfræðimistök á Íslandi, segir Önundur Ásgeirsson , á vegum og á ábyrgð umhverfisráðuneytisins.

TVÖ ár eru liðin frá snjóflóðinu mikla á Flateyri 26. okt. 1995 þar sem 20 manns fórust. Það er nú kominn tími til að menn geri upp við sig, hvað fór úr böndum þá og hvað hefir farið úr böndum síðan. Það er enn verið að byggja svonefnda snjóvarnargarða ofan Flateyrar, og talið að því verki verði lokið í lok nóvember. Þar er verið að framkvæma verstu verkfræðimistök á Íslandi fram til þessa. Þetta verk er unnið á vegum og ábyrgð umhverfisráðuneytisins, en um það ríkir algjör þögn, dauðaþögn, glæpsamleg þögn. Engar upplýsingar eru gefnar um framkvæmd verksins, hvorki af hönnuðunum NGI í Oslo, sem blekktu hérlenda menn til þessara framkvæmda, (en VST hf. var aðeins leppar eða tuskudúkka í þeirra höndum), Framkvæmdasýslu ríkisins, sem á að hafa yfirstjórn framkvæmdanna, og umhverfisráðuneytisins, sem tekið hefir ábyrgð á verkinu og greiðir útlagðan kostnað, sem eg tel að verði ekki undir 800 milljónir, allt greitt að opinberu fé. Hér við má síðan bæta við um 3­4000 milljónum, ef afleiðingarnar verða eyðing byggðar á Flateyri, svo sem allt bendir nú til að verði fyrr en varir, því að landflótti stendur enn yfir.

Fyrst er rétt að benda á að einfalt og ódýrt var og er enn að gera snjóflóðabrautir í Eyrarfjalli neðan beggja giljanna, sem hlífði allri byggð á Flateyri algjörlega fyrir snjóflóðahættu. Þessi leið hefði tryggt það, að öll núverandi byggð á Flateyri hefði haldið gildi sínu og að ekki hefði verið nauðsynlegt að kaupa upp nein íbúðarhús þar, svo sem nú hefir verið gert. Ennfremur hefði verið unnt að byggja upp að nýju á því svæði, sem snjóflóðið úr Skollahvilft braut niður. Aðalsökin liggur hjá hinum norsku ráðgjöfum NGI, sem hönnuðu varnarvirkin án kunnugleika á staðháttum og eftir ljósmyndum af fjallinu teknum með aðdráttarlinsu. Öll íslenzk stjórnvöld, sem komið hafa að þesu máli, hafa legið flöt fyrir þessari "sérfræði" þeirra. Þarna má nefna til sveitarstjóra, oddvita og hreppsnefnd Flateyrarhrepps, síðan bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, þá Skipulag ríkisins og síðast umhverfisráðuneytið, en tveir ósérfróðir og vanhæfir embættismenn þess tóku hina endanlegu ákvörðun um að synja um verkfræðilega skoðun á framkvæmdunum af verkfræðingum Vegagerðar ríkisins svo sem skjalfest er. Þetta minnir óþægilega á, að óheilindi Framsóknarflokksins hafa ávallt verið ógæfa Íslands, allt frá stofnun hans, og svo er enn.

Niðurlæging íslenzkra verkfræðinga

Þessi stórfelldu verkfræðimistök við snjóflóðavarnir á Flateyri hljóta að vekja óhug manna og vantrú á alla verkfræðingastétt landsins. Er það virkilega svo að samstaða innan þessarar séttar geti valdið því að slík mistök eigi sé stað? Framkvæmdastjóri VST gaf út þau fyrirmæli að starfsmenn hans mættu ekki gefa mér upplýsingar um verkið af þeirri ástæðu, að eg hafði dregið í efa að rétt væri að málunum staðið og að aðrir kostir við úrlausn vandans væru betri. Seint og allt of um síðir kom hann úr greni sínu til að atyrða mig fyrir að benda á einfalda lausn vandans. Sama gerðu starfsmenn Snjóflóðavarna. Þetta hafði engin áhrif á snjóflóð á Flateyri, en nú hafa varnir verið gerðar þar af algjörum óvitaskap sem leiðir til landflótta. Er enginn ábyrgur fyrir þessum mistökum? Verða sömu mistökin unnin á öðrum stöðum? Getur stjórn verkfræðingafélagsins látið slíkt við gangast? Það væri gott að fá svör við slíkri spurningu. Snjóflóðavarnir Veðurstofunnar hafa látið NGI gera áætlun um varnir á öðrum stöðum fyrir 7­8 milljarða króna, allt greitt af opinberu fé. Hver tryggir að þær áætlanir séu í lagi? Íslenzkir verkfræðingar eru sniðgengnir, en sitja uppi með niðurlæginguna af hálfu fákunnandi embættismanna Snjóflóðavarna Veðurstofunnar og sérstaklega umhverfisráðuneytisins. Eru mistökin á Flateyri ekki nægilega slæmt fordæmi fyrir ábyrga stjórnmálamenn? Hvað fylgir á eftir?

Ábyrgð NGI

Hönnun varnargarðanna á Flateyri var unnin af starfsmönnum Norges Geotekniske Institutt í Ósló, sem fram til þessa hafa synjað um upplýsingar um ábyrgð þeirra á verkinu. Nú upplýsir norska sendiráðið í bréfi 06.11. 97 að NGI sé "en privat, selveiende stiftelse som ikke hörer under noen bestemt statsraad." Ábyrgðin er þannig vafasöm, en kannske telja þeir sig vera í skjóli feluleiksins hjá VST. Hver veit? Mbl. birtir 06.11. 97 myndir af framkvæmdunum og segir að lokið sé við efri þvergarðinn ("leiðigarður" hét hann hjá NGI/VST) og mælist hann 20 m að ofan (skv. kröfu NGI) en 30 m að neðan. Þetta fær ekki staðist, nema grafin hafi verið gjá í brattann ofan þvergarðsins. Þessi gjá verður þó að litlu gagni því að hún mun standa full af snjó frá hausti til vors.

Snjóflóðavarnirnar á Flateyri er versta verkslysið, sem orðið hefir á Íslandi og lítil gleði getur fylgt því fyrir stjórnvöld að hafa tekið ábyrgð á því. Miðstýring framsóknarmanna er bæði hættuleg og dýr.

Höfundur er fyrrv. forstjóri.

Önundur Ásgeirsson