Ragnar Ottó Arinbjarnar
Vinátta okkar þriggja, höfunda
þessarar greinar, við Ragnar Arinbjarnar hófst á skólaárunum, en einmitt á þeim árum tengjast menn böndum sem oft halda ævina á enda.
Við vorum saman í stærðfræðideildinni í MR og lukum stúdentsprófi vorið 1949. Stofan okkar var gamla eðlisfræðistofan þar sem bekkirnir hækkuðu upp eins og í forngrísku leikhúsi. Þetta var samheldinn bekkur, en eins og alltaf áttu menn þó misvel saman og hópar mynduðust innan hópsins.
Það var engin tilviljun að menn löðuðust að Ragnari Arinbjarnar því hann hafði alla þá kosti sem prýða mega góðan félaga. Hann var gamansamur í meira lagi, jafnlyndur og góðviljaður og lagði aldrei illt til manna. Þá spillti ekki að heimilið sem móðir hans hélt með þeim bræðrum á Miklubrautinni stóð öllum opið og margar góðar stundir áttum við þar í grænu stólunum. Samræður okkar voru spaklegar eins og títt er hjá ungum mönnum, en þarna var líka hlegið dátt og gripið í tafl ef svo bar undir. Guðrún, móðir Ragnars, féll vel inn í hópinn og lét sér annt um unga fólkið. Á Háskólaárunum losnaði nokkuð um tengsl okkar skólabræðranna eins og gengur, en síðar tókum við aftur upp þráðinn, og Ragnar varð okkur allt í senn, læknir, félagi og vinur.
Vegna þess hve Ragnar var hispurslaus maður í framkomu og löngun hans til að hjálpa djúpstæð og augljós, leituðu sjúklingar hans ráða hjá honum í hinum ólíklegustu málum, t.d. um húsakaup, jafnvel bílakaup. Þá kom sér ekki illa að Ragnar hafði jafnan spaugsyrði á vörum við sjúklinga sína og víst er um það að margur fór af hans fundi léttari í spori en þegar hann kom.
Sú saga er sögð að eitt sinn hafi kona komið til hans á stofuna, en Ragnar upptekinn í símanum. Hann býður konunni sæti, en hún kaus að standa og fer að virða fyrir sér mynd sem hékk þar á veggnum eftir myndasmiðinn Alfreð Flóka, og gat þar að líta heldur ókræsileg skötuhjú. Ragnar lýkur símtalinu og segir: "Þetta er nú mynd af pabba og mömmu." Konan lítur á Ragnar og svarar að bragði: "Já, mér finnst ég sjá svip."
Þeirri skoðun vex nú mjög fylgi meðal fólks að hver eigi að vera sjálfum sér næstur, og að tilgangur lífsins sé sá að bítast um bitana af sem mestu kappi. Í þeim leik gat Ragnar Arinbjarnar aldrei orðið fremstur, bæði var það að hann var í eðli sínu einstaklega óásælinn maður, auk þess sem lífsskoðanir hans rímuðu betur við það sem Halldór Laxness segir í kvæðinu um Maríu Farrar: "Hvað er líf án samhjálpar frá vinum".
Nú, þegar Ragnar er allur saknar margur vinar í stað. Skarð hans verður vandfyllt og við félagarnir verðum vart svo gamlir að við söknum hans ekki. Sárastur er þó söknuður ástvina hans og þeim sendum við innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ragnars Arinbjarnar.
Stefán Sigurkarlsson,
Pétur Guðfinnsson,
Þorvaldur Lúðvíksson.