Elín K. Sumarliðadóttir
Elsku amma okkar og langamamma, eins og langaömmubörnin
sögðu alltaf.
Okkur óraði ekki fyrir því að þú færir svona fljótt frá okkur.
Okkur finnst eitthvað svo stutt síðan hann afi okkar dó og við sátum saman systkinin og skrifuðum minningarorð um hann, og núna sitjum við aftur saman og skrifum til þín, elsku amma Elín.
Það er svo margs góðs að minnast, mörg voru jólin sem þú og afi deilduð með okkur og síðan þú eftir að afi dó. Þegar við komum úr miðnæturmessunni beið okkar jafnan heitt súkkulaði sem þú hafðir lagað eins og þér einni var lagið. Eins tókst þú að þér að laga sósuna með matnum sem var sérstaklega góð. Þessi jól munu verða einmanaleg án þín. Ófáar voru ferðirnar til Reykjavíkur til að heimsækja þig og afa. Stundum fengum við að gista og mikið var nú dekrað við okkur, með góðum mat, sælgæti, vídeóspólum og fl. Oft fórum við saman í strætó niður að tjörn til að gefa öndunum brauð og komum svo við í búð eða bakaríi á leiðinni heim til að kaupa eitthvert slikkerí. Þið afi áttuð heima á móti róluvelli, og tók Eiríkur fljótt upp á því að kalla ykkur ömmu og afa á Róló, sem festist síðan við ykkur hjá okkur systkinunum. Þú varst svo blíð og góð og svo umhugað um að okkur barnabörnunum og langömmubörnunum liði vel. T.d. þegar afi dó spurði Helga systir okkar í barnslegri einlægni "hver ætti núna að gefa sér smápeninana" og passaðir þú alltaf uppp á að gefa henni klinkið eftir að þú heyrðir þetta. Þú varst svo einstaklega gjafmild að ef við töluðum um að okkur langaði í eitthvað, þá gafstu okkur það yfirleitt. Já, það er sko óhætt að segja að þú hafir dekrað við okkur en það besta var að þú varst til. Og hlýjasta minningin ert þú sjálf og vel puntaða og fallega andlitið þitt. Því þú varst mikil smekkmanneskja og glæsilegri konu höfum við sjaldan séð. Elsku amma, með þessu fátæklegu orðum kveðum við þig.
Lítill drengur lófa strýkur
létt um vota móðurkinn,
augun spyrja eins og myrkvuð
ótta og grun í fyrsta sinn:
Hvar er amma, hvar er amma,
hún sem gaf mér brosið sitt
yndislega og alltaf skildi
ófullkomna hjalið mitt?
Lítill sveinn á leyndardómum
lífs og dauða kann ei skil;
hann vill bara eins og áður
ömmu sinnar komast til,
hann vill fá að hjúfra sig að
hennar brjósti sætt og rótt.
Amma er dáin amma finnur
augasteininn sinn í nótt.
Lítill drengur leggst á koddann
lokar sinni þreyttu brá,
uns í draumi er hann staddur
ömmu sinni góðu hjá.
Amma brosir amma kyssir
undurblítt á kollinn hans.
Breiðist ást af öðrum heimi
yfir beð hins litla manns.
(Jóhannes úr Kötlum.) Elsku mamma, Bubba og Helgi. Við vottum ykkur innilega samúð og biðjum góðan guð að vaka yfir ykkur og leiða ykkur og okkur öll í gegnum sorgina.
Elín Katrín Rúnarsdóttir,
Ægir Máni Bjarnason,
Álfrún Auður Bjarnadóttir,
Eiríkur Már Rúnarsson og
Helga Þórey Rúnarsdóttir.