Elín K. Sumarliðadóttir
Elsku amma, mig langar til að
kveðja þig með nokkrum orðum.
Alltaf var gaman að koma til ykkar afa í heimsókn, þar var manni alltaf tekið opnum örmum, hvort sem ég kom ein eða með vinkonurnar. Það var ekki sjaldan sem við vinkonurnar skruppum til Reykjavíkur og þá fengum við alltaf að gista hjá ykkur á Hofsvallagötunni.
Þegar ég bjó í bænum veturinn '93'94 var ég daglegur gestur hjá ykkur afa, og ef ég nennti ekki heim á kvöldin, þá var bara búið um mig í sófanum í stofunni.
Elsku amma, aldrei mun ég gleyma miðvikudeginum 27. ágúst, þegar mamma kom í vinnuna til mín og sagði mér að þú lægir mikið veik á spítalanum, ég vildi ekki trúa því, því ég hafði hitt þig kvöldið áður og þá var ekki hægt að sjá að þú værir að veikjast, en nú hefur þú hlotið verðskuldaða hvíld eftir mikla baráttu sl. þrjá mánuði.
Elsku amma, nú kveð ég þig með þessari litlu bæn.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
Guð geymi þig, elsku amma.
Þín dótturdóttir,
Þórína Baldursdóttir.