Elín K. Sumarliðadóttir Okkur langar með nokkrum orðum að minnast ömmu á róló. Það er með söknuði og hlýhug í hjarta sem við kveðjum þig elsku amma, en það er huggun harmi gegn að nú vitum við að loks eruð þið sameinuð á ný, þú og afi. Ótal hugsanir koma upp í hugann þegar hugurinn reikar milli allra þeirra góðu stunda sem við áttum á Hofsvallagötunni, þar sem maður gat ávallt gengið að því vísu að þar fengi maður gott skjól í stórborginni. Það er mér ennþá ferskt í minni þegar þú kenndir mér faðirvorið þegar ég var bara smápeyi, og í hvert sinn sem ég fer með það verður mér hugsað til þín, elsku amma, og mun það verða svo um ókomna tíð. Nú síðasta árið höfum við ekki haft mikinn tíma saman þar sem ég er búinn að vera á sjónum og í námi í Reykjavík en alltaf var það sama uppi á teningnum þegar ég hringdi af sjónum í þig, alltaf allt gott að frétta og allt í fína lagi. En áföllin gera ekki boð á undan sér, þú sem varst búin að skipuleggja svo margt á næstunni, en allt breyttist á svipstundu og við því er ekkert að gera.

Það er með sárum söknuði sem við kveðjum þig, takk fyrir allar góðu stundirnar, elsku amma.

Hjálmar Kristinn

og Guðbjörg.