Ragnar Ottó Arinbjarnar Okkur langar að minnast mágs okkar, Ragnars Ottós Arinbjarnar, með nokkrum orðum.

Gréta systir okkar kynntist Ragnari 1962 og hófu þau sambúð. Þetta var um það leyti sem faðir okkar lá banaleguna eftir löng og erfið veikindi. Eftir að hann dó hölluðum við bræðurnir okkur ósjálfrátt að Ragnari þar sem við áttum örugga velvild og stuðning sem við gátum gengið að ætíð síðan. Þetta var mjög mikilvægt fyrir okkur í því þjóðfélagsmunstri sem var á þessum tíma, þar sem flest byggðist á því að maður þekkti mann og við þekktum fáa. Við hljótum að hafa verið nokkuð þreytandi í gegnum árin komandi með öll okkar vandamál til úrlausnar hjá Ragnari, en ekki var það á honum að merkja og alltaf voru málin leyst farsællega. Eftir að við stofnuðum sjálfir fjölskyldur fékk Ragnar þar til viðbótar alla krankleika þessara fjölskyldna til greiningar og var ætíð boðinn og búinn að leysa þau mál þegar þau komu upp.

Ragnar og Gréta hófu búskap í Reykjavík og um tíma bjuggu þau í Garðabæ. Árið 1968 fluttu þau á Sunnubrautina í Kópavogi þar sem þau hafa búið síðan. Börnin voru orðin þrjú og hafði fjölskyldan á Sunnubrautinni í nógu að snúast fyrstu árin. Tekið var á með myndarbrag að breyta húsi og lóð sem verið höfðu í niðurníðslu í notalegt heimili og fallegt umhverfi.

Við vorum tíðir gestir á þessum árum og var þá mikið spjallað og er sérstaklega minnisstætt hve Ragnar lagði mikla áherslu á að menn menntuðu sig og víkkuðu sjóndeildarhringinn, enda var aðaláhugamál hans lestur og hvers kyns fróðleiksgrúsk. Það var æði oft þegar okkur vantaði skilning á orðum og ýmsum málefnum að leitað var til Ragnars og ef hann hafði ekki skýringar á reiðum höndum, var kafað í málið og skýringar fundnar, enda gott bókasafn til á heimilinu um allt á milli himins og jarðar. Það er ljóst að samskiptin við Ragnar mótuðu skoðanir okkar meira en nokkuð annað á þessum tíma.

Atvikin höguðu því þannig að við bræðurnir áttum báðir eftir að setjast að fjarri höfuðborgarsvæðinu. Eftir það urðu samskiptin eðlilega ekki eins tíð, en sambandið rofnaði aldrei. Það var föst regla að koma við á Sunnubrautinni hvenær sem tækifæri gafst og þá var þráðurinn tekinn upp, málin rædd og Ragnar fræddi mann um það sem hann var að stúdera þá stundina, sem gátu verið hin ólíklegstu mál eða það var bara spjallað um lífið og tilveruna.

Nú þegar komið er að leiðarlokum viljum við þakka Ragnari alla velvildina, skilninginn og hjálpina sem hann hefur veitt okkur í gegnum tíðina og kveðjum góðan dreng með söknuði. Blessuð sé minning hans.

Páll Pálsson, Jóhannes H. Pálsson.