Ragnar Ottó Arinbjarnar
Í rúman aldarfjórðung var Ragnar Arinbjarnar heimilislæknir minn.
Vinskapur okkar óx með árunum og þegar ég leit við á stofunni hans bar oftast fleira á góma en mín læknisfræðilegu erindi. Frjálslegur var hann og spaugsamur og gamanmál aldrei langt undan. Jafnan fór maður léttari í skapi af hans fundi en maður kom.
En bak við spaugið var hinn samviskusami læknir. Svör átti hann við flestu og ef ekki, þá vissi hann hvar þau var að fá og dró þá ekki að vísa sjúklingum sínum þangað sem þeim yrði fyrst og best sinnt. Og þyrfti maður að ónáða hann utan vinnutíma tók hann því ávallt ljúfmannlega. Þannig voru formlegheit og stífni ekki hans stíll. Hann var heimilislæknir í besta skilningi þess orðs.
Um leið og ég votta fjölskyldu og ástvinum Ragnars samúð mína kveð ég lækninn minn með þökk fyrir umhyggju, skilning og margháttaðan stuðning um meira en hálft mitt æviskeið.
Genginn er góður drengur.
Baldur Ágústsson.