Ragnar Ottó Arinbjarnar "Lífið er of stutt til þess að láta sér líða illa."

Þessi setning hljómar í huga mér. Þú varst ekki aðeins læknirinn minn heldur lífsreyndur vinur sem hægt var að leita til þegar örlaganornirnar spunnu vef sinn og bönkuðu harkalega á dyr sálarinnar.

Þú varst sá mesti mannvinur sem ég hef kynnst um ævina og leit ég alltaf upp til þín. Erfitt er að vita til þess að sjá þig ekki oftar í þessu jarðneska lífi en við hittumst örugglega aftur á fallegri og betri stað, og þá veit ég að þú átt eftir að lauma að mér gullkornum sem ég geymi um aldur og ævi. Ég þakka þér fyrir alla umhyggjuna í minn garð, bæði sem læknir og vinur, og megi þér líða betur þar sem þú ert núna. Ég votta fjölskyldu þinni mína innilegustu samúð og vona að þeim muni ávallt líða sem best.

Ég kveð þig, vinur minn, með tilvitnun í "Spámanninn okkar":

Til eru þeir sem eiga lítið og gefa það allt.

Þetta eru þeir sem trúa á lífið og nægtir

lífsins og þeirra sjóður verður aldrei tómur.

Til eru þeir sem gleðjast þegar þeir gefa,

og gleðin er laun þeirra.

Þeir gefa eins og blómið í garðinum, sem

andar ilmi sínum út í loftið.

Með verkum þeirra talar guð til mannanna

og úr augum þeirra lýsir bros hans jörðinni.

Kristín Friðriksdóttir.