Tréverk Láru
Stykkishólmur. Morgunblaðið.
Í NORSKA húsinu í Stykkishólmi
stendur yfir myndlistarsýning Láru Gunnarsdóttur. Lára hefur búið í Stykkishólmi síðan 1992 og er þetta í þriðja sinn sem hún heldur hér einkasýningu á verkum sínum.
Lára stundaði nám í Handíðaskóla Íslands 19781983 og lauk prófi frá grafíkdeild. Hún hefur mikið fengist við grafík, en síðustu ár hefur hún snúið sér meir að handverki þar sem efniviðurinn er íslenskt birki úr Hallormsstaðaskógi. Lára hefur vinnustofu heima hjá sér þar sem hún hefur góða aðstöðu til að vinna við sína listsköpun.
Á sýningunni í Norska húsinu eru 33 myndir sem allar eru unnar úr íslensku tré. Efniviðurinn er lerki og birki. Byrjað er á að rista tréð í fjalir í mismunandi lengdum. Myndirnar eru skornar í efniðviðinn og málaðar síðan með olíulitum. Lára byrjaði á þessari myndgerð í haust, en áður hefur hún tálgað karla og kerlingar sem hún hefur rennt og málað. Þær manneskjur hafa verið mjög vinsælar og selst vel. Sýningin er skemmtileg og athyglisverð. Myndefnið er m.a. gömul hús og kvenlíkaminn. Þær eru hlýlegar og virka vel á áhorfandann.
Hólmarar hafa gert sýningunni góðan róm sem sést best á því að stór hluti verkanna er seldur. Að sögn Láru eru Hólmarar hrifnari af húsamyndunum, en minna fyrir kvenfólkið og virðast þeir lítið kæra sig um að hafa það uppi á vegg heima hjá sér. Sýningin er opin daglega og henni lýkur 6. janúar.
Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason "MYND" skorið í lerki og börkurinn er notaður sem rammi. Myndin sýnir síðustu kvöldmáltíðina.
LÁRA Gunnarsdóttir við eitt verka sinna.