Í FYRRI greinum mínum um þetta málefni var einungis farið almennum orðum um brot atvinnurekenda á réttindum launafólks. Eðlilegt er því að fólk spyrji: Hvað er maðurinn að meina? Þess vegna ætla ég að fjalla um nokkur atriði sem eru atvinnurekendum til verulegs vansa að hafa í því horfi sem þau eru í í dag. Matar- og kaffihlé o.fl.
Enn um réttleysi launafólks

Réttindamálum starfsfólks á veitinga- og skemmtistöðum þarf, að mati Guðbjörns Jónssonar , að fylgja mun betur eftir.

Í FYRRI greinum mínum um þetta málefni var einungis farið almennum orðum um brot atvinnurekenda á réttindum launafólks. Eðlilegt er því að fólk spyrji: Hvað er maðurinn að meina? Þess vegna ætla ég að fjalla um nokkur atriði sem eru atvinnurekendum til verulegs vansa að hafa í því horfi sem þau eru í í dag.

Matar- og kaffihlé o.fl.

Í kjarasamningum er gert ráð fyrir ákveðnum reglum um matar- og kaffitíma starfsfólks. Þessar reglur eru því miður almennt brotnar á veitinga- og skemmtistöðum. Mörg dæmi eru um að starfsfólk verði að vinna 12 tíma eða meira, án þess að fá reglulegan hvíldartíma til að nærast. Iðulega heyrir maður að fólk fái tuttugu mínútna til hálftíma neysluhlé á 12 tíma vinnuvakt. Fjölmörg dæmi hafa einnig komið upp sem benda til þess að fólk sé látið vinna í 6 til 7 klst. án þess að fá neitt neyslu- eða hvíldarhlé. Dæmi eru einnig um að fólk sé langtímum saman eitt á vakt og geti ekki komist frá til að fara á salerni þó líkamsstarfsemi geri tilkall til þess. Óeðlileg ábyrgð er sett á ungmenni án þess að veita þeim nauðsynlega fræðslu eða að greitt sé fyrir þessa ábyrgð. Óreglulegur vinnutími og óöryggi um hvenær fólk eigi næst að mæta til vinnu, kemur nánast í veg fyrir að það geti fengið sér aðra vinnu með starfi eða hlutastarfi á veitinga- eða skemmtistöðum. Afleiðing þessa er m.a. að fólk er að tapa varanlega rétti til fullra atvinnuleysisbóta. Það á því ekki önnur úrræði til framfæris en leita aðstoðar félagsmálastofnana. Fleiri dæmi mætti nefna en hér verður látið staðar numið í bili.

Virðingarleysi

Þó að framangreindir þættir séu allir slæmir er virðingarleysi atvinnurekenda gagnvart starfsfólki sínu eitt það versta sem inn á borð til mín kemur. Á mínum yngri árum var iðulega spurt: "Er þessi verkstjóri hæfur til að hafa ungmenni í vinnu og vera leiðbeinandi við fyrstu reynslu þeirra í vinnu?" Því miður heyrist þessi spurning sjaldan frá foreldrum eða forráðamönnum ungmenna nú. Þau eiga sér því fáa málsvara sem gæta réttinda þeirra meðan þau eru að öðlast reynslu og þroska til að gæta þessara réttinda sjálf. Afleiðingin er skelfileg, andlegt niðurbrot og kúgun viðgengst á of mörgum vinnustöðum. Hægt væri að nefna mörg tilfelli þar sem ungmenni hafa orðið fyrir miklu andlegu áfalli vegna ónauðsynlegs persónulegs niðurrifs og rangra ásakana. Svo virðist sem þessum aðferðum sé iðulega beitt við að reka fólk úr vinnu eða hrekja það af vinnustað með því að gera því lífið óbærilegt þar.

Ragur er sá er við rassinn glímir ...

Frá því að ég hóf störf hjá Félagi starfsfólks í veitingahúsum (FSV) í ársbyrjun 1994 hafa forystumenn í Vinnuveitendasambandinu (VSÍ) og hjá Sambandi veitinga- og gistihúsa (SVG) stundað illa dulinn atvinnuróg gagnvart mér. Tilgangurinn er augljóslega að fá mig rekinn úr starfi við réttindagæslu félagsmanna FSV. Nýjasta dæmið um slíkt er að fimmtudaginn 27. nóvember voru formaður og varaformaður FSV kölluð á fund SVG þar sem kvartað var yfir framferði mínu. Ég átti meira að segja að hafa verið svo ósvífinn að bjóða einhverjum atvinnurekanda góð ráð í rekstrarmálum. Ástæða þessarar kvörtunar atvinnurekenda er augljós. Ég varð því miður að flengja framkvæmdastjóra SVG opinberlega fyrir ósannsögli er hún reyndi í blaðagrein að telja landsmönnum trú um að ég væri að fara með rangt mál. Ástæða óvinsælda minna hjá forystumönnum samtaka atvinnurekenda er áreiðanlega einnig sú, að ítrekað hefur aðallögmaður VSÍ reynt að hrekja vandaða vinnu mína á framsetningu kröfumála en því miður fyrir hann, hefur hann alltaf farið erindisleysu. Dómarar hafa verið mér sammála. Málatilbúnaður hans hefur líka frekar snúist um að sannfæra dómara um að ég hefði ekkert vit á því sem ég væri að gera en beita efnislegum lögskýrðum rökum. Vandi hans er sá að dómarar hafa fram til þessa verið mér sammála um túlkun kjarasamninga og taka ekkert mark á fullyrðingum lögmanns VSÍ um þekkingarleysi mitt.

Skjólgarður persónuníðs?

Lágkúra forystumanna þessara samtaka atvinnurekenda er mikil. Með þögninni leggja þeir blessun sína yfir persónulegar árásir á mig, sem einn af félagsmönnum SVG viðhafði í bréfi, er ég tilkynnti honum um fjölmörg brot hans á gildandi lögum og kjarasamningum, meðal annars brot á lögum um vernd barna og ungmenna. Í tilefni af þessu ritaði ég bæði VSÍ og SVG bréf, þar sem ég óskaði eftir skriflegu svari þeirra við hvort samtök þeirra væru sammála eða fylgjandi svona vinnubrögðum. Lét ég fylgja með afrit af bréfi félagsmanns þeirra. Þó að rúmt ár sé liðið frá sendingu bréfsins, hefur ekkert svar borist, frá hvorugum þessara aðila. Þeir kjósa greinilega frekar að sitja í óþverranum með þessum félagsmanni sínum en hlíta almennum kurteisisreglum. Að sjálfsögðu hafa þeir heimild til að velja, en geta þá ekki samtímis gert kröfu um að borin sé virðing fyrir þeim fyrir kurteisi. Ég hef hins vegar í öllum samskiptum mínum við forystumenn þessara samtaka sýnt þeim fulla kurteisi og lagt mig einlæglega fram um að leysa þau mál sem um hefur verið fjallað. Vandinn er hins vegar sá, að þeir virðast vera svo vanir máttlausum mótbárum stéttarfélaga að þeim ofbýður sú frekja að haldið sé fram rétti launafólks.

Að lokum þetta

Undanfarin fjögur ár hef ég beint til ráðamanna þjóðfélags og samtaka atvinnurekenda að takast á við þann vanda sem fyrir hendi er í réttindamálum starfsfólks á veitinga- og skemmtistöðum. Einkanlega hef ég hamrað á mikilvægi breytinga vegna þess fjölda ungmenna sem stunda þessa vinnu. Því miður hefur árangur orðið lítill. Þess vegna tók ég þá ákvörðun að fjalla opinberlega um þann subbuskap sem viðgengst í þessari atvinnugrein. Vilji atvinnurekendur losna við þessa umfjöllun, verða þeir að standa upp og taka til í garði sinnar eigin atvinnugreinar. Það gerir það enginn fyrir þá, nema kannski Alþingi, hafi þeir sjálfir ekki manndóm til þess. Um óheiðarleg vinnubrögð forystumanna samtaka atvinnurekenda gagnvart mér vil ég segja þetta: Þau munu hitta ykkur sjálfa fyrir þó síðar verði.

Höfundur er starfsmaður FSV.

Guðbjörn Jónsson