STJÓRN Vírnets hf. í Borgarnesi hefur samþykkt að láta skrá hlutabréf fyrirtækisins á Opna tilboðsmarkaðnum og verða bréfin skráð á markaði í dag. Vírnet hf. var stofnað árið 1956 og hafa landsmenn eflaust flestir lamið á afurðum fyrirtækisins því það hefur verið hvað þekktast fyrir naglaframleiðslu sína þó ýmislegt fleira hafi bæst við í seinni tíð.
ÐVÍRNET Á

NÝJAR SLÓÐIR

Nýtt íslenskt iðnfyrirtæki bætist í hóp þeirra fyrirtækja sem skráð hafa hlutabréf sín á markaði í dag er hlutabréf Vírnets hf. í Borgarnesi fá auðkenni á Opna tilboðsmarkaðnum. Þorsteinn Víglundsson ræddi við Pál Guðbjartsson, framkvæmdastjóra, um fyrirtækið og framtíðarhorfur þess.

STJÓRN Vírnets hf. í Borgarnesi hefur samþykkt að láta skrá hlutabréf fyrirtækisins á Opna tilboðsmarkaðnum og verða bréfin skráð á markaði í dag. Vírnet hf. var stofnað árið 1956 og hafa landsmenn eflaust flestir lamið á afurðum fyrirtækisins því það hefur verið hvað þekktast fyrir naglaframleiðslu sína þó ýmislegt fleira hafi bæst við í seinni tíð.

Í upphafi var ætlunin að fyrirtækið framleiddi girðingarefni en þegar til kastanna kom reyndist húsnæði það sem tekist hafði að útvega ekki nægilega stórt og var því afráðið að framleiða nagla þess í stað. Sú framleiðsla hefur verið uppistaðan í rekstri Vírnets allar götur síðan en vöruúrvalið hefur þó verið að aukast jafnt og þétt.

Páll Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Vírnets undanfarin 25 ár segir að fyrirtækið fari á markað nú til að eiga kost á að geta selt nýtt hlutafé í framtíðinni. Ekki standi hins vegar til að auka hlutafé þess nú.

"Það má segja að með þessu séum við annars vegar að fá verðmat markaðarins á þessu fyrirtæki um leið og við opnum fyrir möguleikann á því að afla fyrirtækinu aukins fjárfestingarfjármagns í framtíðinni."

Páll segir hins vegar enga ákvörðun liggja fyrir enn um hvort sóst verði eftir skráningu á hlutabréfum fyrirtækisins á Vaxtarlista Verðbréfaþings. "Við munum á þessu stigi láta það nægja að skrá bréfin á Opna tilboðsmarkaðnum. Það má segja að við séum að kanna landslagið á hlutabréfamarkaðnum og við munum í framhaldinu taka ákvörðun um hvort við munum taka næsta skref."

Páll segir að rekstur fyrirtækisins hafi verið í nokkuð góðu jafnvægi á undanförnum árum ef frá séu skilin tvö heldur slæm rekstrarár, 1992 og 1993. "Ef við lítum á afkomu síðustu þriggja ára þá hefur hún verið viðunandi og við væntum þess að þetta ár verði það einnig.

Það sem gerðist hins vegar 1992 var að við keyptum fyrirtæki hér í Borgarnesi sem hét Bifreiða- og trésmiðja Borgarness. Það fyrirtæki hafði átt við erfiðleika að etja í rekstri og yfirtakan hafði það í för með sér að við fengum þessi tvö slæmu ár þar sem okkur tókst ekki að snúa þróuninni við hjá því fyrirtæki. Við gripum því til þess ráðs að hætta rekstri þess að mestu en héldum þó eftir járnsmíðaverkstæði fyrirtækisins. Staða okkar var hins vegar orðin dálítið erfið vegna þessa taps og því gripum við til þess ráðs að auka hlutafé um rúmlega 18 milljónir króna."

Batnandi verkefnastaða samhliða aukinni stóriðju

Páll segir að járnsmiðjan hafi skapað Vírneti umtalsverð verkefni. Bifreiða- og trésmiðja Borgarness hafi mikið fengist við að byggja yfir flutningabifreiðar og þeirri starfsemi hafi verið haldið áfram eftir kostum en samkeppni á því sviði hafi þó farið vaxandi á undanförnum árum.

Hann segir deildina hins vegar hafa fært félaginu aukin verkefni bæði í almennri járnsmíði og sölu á járnsmíðaefni. Nokkur verkefni hafi fengist hjá Járnblendifélaginu og aukin stóriðja á svæðinu muni væntanlega bæta verkefnastöðu deildarinnar frekar. "Við getum í sjálfu sér ekki verið að fjárfesta í miklum mæli til að geta annast sjálfa uppbygginguna í stóriðjunni. Við horfum hins vegar til þess að viðhaldsverkefni muni aukast á næstu árum og jafnvel þó svo að við hreppum þau ekki þá losnar væntanlega um önnur verkefni í staðinn," segir Páll. "Þá höfum við auðvitað verið að selja þeim verktökum sem unnið hafa við bæði álverið og járnblendið nokkuð af efni."

Páll bendir á að umsvif stóriðju eigi eftir að aukast enn frekar á þessu svæði. Þannig verði verksmiðja Járnblendifélagsins á Grundartanga að öllum líkindum stækkuð á næstu árum og ekki sé ólíklegt að fljótlega í kjölfarið yrði ráðist í stækkun á álveri Norðuráls.

Auk þessa hefur járnsmíðadeild fyrirtækisins unnið að hönnun og framleiðslu nýrra gjafagrinda fyrir sauðfé, í samvinnu við rannsóknadeild Bændaskólans á Hvanneyri. Hönnun grindanna sé nú lokið og þær fyrstu hafi þegar verið seldar.

Páll segir þessar grindur geta breytt miklu í fóðrun sauðfjár. Bæði komi þar til að betri nýting náist á heyi og að kindurnar geti ekki kastað heyinu yfir sig eins og stundum vilji gerast, en það geti haft slæm áhrif á gæði ullarinnar.

Staða naglaframleiðslunnar sterk

Naglaframleiðslan var lengst af kjölfestan í starfsemi Vírnets. Páll segir að þar kunni að skipta nokkru máli að Vírnet sé eini naglaframleiðandinn hér á landi. "Að vísu er eitthvað flutt inn af nöglum en það er þó ekki mjög mikið."

Páll segir hins vegar að umtalsverðar breytingar hafa orðið á í byggingariðnaði hér á landi á undanförnum árum sem leitt hafi til minni notkunar á nöglum og mótavír. Þannig hafi t.d. naglanotkun í mótasmíði breyst mikið með aukinni notkun flekamóta og þeim hafi sömuleiðis fylgt svokölluð Breiðfjörðstengi sem hafi að hluta komið í stað mótavírs.

"Þá hefur það stórlega dregist saman að menn noti vinnupalla úr timbri heldur hafa álvinnupallar komið þeirra í stað," segir Páll.

Hann segir að á móti hafi hins vegar fjölgað verulega þeim tegundum nagla sem fyrirtækið framleiði. "Lengi vel var það svo að við framleiddum ekki þaksaum hér né heldur kambsaum. Við höfum hins vegar verið að bæta þessum tegundum inn á undanförnum árum og það ásamt fleiru hefur haldið aftur af samdrætti á þessu sviði. Þá erum við líka farin að framleiða saum úr fleiri efnum en áður, svo sem eir, og nú áli."

Völsun bárujárns hafin fyrir tilviljun

Vírnet hefur undanfarin 20 ár valsað bárujárn fyrir innanlandsmarkað og segir Páll að fyrirtækið sé nú líkast til stærsti aðilinn á þessum markaði en þó sé erfitt að gera sér nákvæma grein fyrir stærð hans. Hann segir að það hafi nánast verið fyrir einskæra tilviljun að Vírnet hafi farið út í þessa framleiðslu á sínum tíma. Hingað til lands hafi komið sölumaður sem boðið hafi Vírneti völsunarvél til kaups. Í fyrstu hafi verið talið að þetta yrði fyrirtækinu of þungt en við nánari skoðun hafi menn ákveðið að slá til.

Í dag er bárujárnsframleiðslan orðin einn helsti stólpinn í rekstri Vírnets. Fyrirtækið réðst í umtalsverða endurnýjun á tækjabúnaði sínum árið 1990 og síðastliðið sumar hófst tilraunaframleiðsla á þakplötum úr áli.

Páll segir álplöturnar hafa farið hægt af stað en það sé þó lítt að marka þróunina enn þar sem skammt sé um liðið frá því sala hófst.

Hann segir álið hafa nokkra kosti fram yfir hefðbundnar þakplötur. "Álið er nokkuð léttara en þar sem það er mýkra en stál þarf að hafa það í meiri þykkt. Vírnet framleiðir einnig þakplötur úr álzinkhúðuðu stáli, þ.e. stáli sem er húðað með blöndu úr áli og zinki og telja margir að þær plötur endist nokkuð betur í sjávarlofti en galvaniserað stál og því gætu þessar plötur hentað ágætlega við íslenskar aðstæður."

Að sögn Páls olli það nokkrum töfum í þakplötuframleiðslu fyrirtækisins nú í sumar, hversu erfiðlega gekk að afla hráefnis. "Vandamálið virðist vera að bílaframleiðendur eru farnir að nota mjög mikið af galvaníseruðu efni í framleiðslu sína og það hefur valdið afgreiðslutöfum hjá birgjum okkar. Við urðum því af nokkrum sölum vegna þessa en við teljum að við höfum leyst úr þeim málum nú."

Við hlið þajplötuframleiðslunnar rekur Vírnet blikksmiðju, sem upphaflega var stofnuð til að framleiða álfellur og fylgihluti með klæðningarstálinu, en hefur þróast út í alhliða þjónustublikksmiðju.

Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu kom samdráttur sá sem varð í byggingariðnaði á fyrri hluta þessa áratugar ekki hart niður á Vírneti. Páll segir að það skapi nokkurn stöðugleika í rekstri fyrirtækisins að viðhald eldri húsa bíði yfirleitt mögru áranna.

"Menn þurfa jú að halda við húsum og það var svo að á meðan mestu þensluárin gengu yfir var nánast útilokað að fá smið til viðhaldsverka. Síðan þegar draga tók úr nýbyggingum þá færðist meira líf í viðhaldsverkefnin. Þar er talsvert um að verið sé að skipta um þakjárn á húsum eða klæða hús vegna steypuskemmda. Menn þurfa nú líka alltaf að nota nagla. Það kann því að vera að við höfum fundið minna fyrir þessum samdrætti en önnur fyrirtæki í byggingariðnaði."

Aukinn útflutningur til Færeyja

Á síðasta ári hóf Vírnet útflutning á framleiðslu sinni til Færeyja. Sendar voru nokkrar sendingar af bárujárni og gaf það góða raun að sögn Páls. Hann segir að Færeyingar hafi aðallega flutt inn bárujárn frá Bretlandi áður. Þar hafi þó báran aðeins fengist í stöðluðum lengdum.

"Við buðum þeim að selja þeim þær lengdir sem þeir óskuðu eftir og það virðist hafa fallið þeim vel í geð því þessi viðskipti hafa aukist nokkuð. Á grundvelli þeirrar reynslu sem fékkst á síðasta ári gerðum við áætlun fyrir árið 1997. Sú áætlun stóðst mjög vel og í september hafði þessi útflutningur þrefaldast frá því sem var á síðasta ári.

Við bindum vonir við að þetta vaxi á næstu árum. Efnahagsástand í Færeyjum hefur heldur farið batnandi og við bindum því nokkrar vonir við þennan markað," segir Páll.

Morgunblaðið/Theodór PÁLL Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Vírnets í Borgarnesi.

VÍRNET tók nýverið í gagnið u.þ.b. 1.200 fermetra viðbyggingu við húsnæði félagsins í Borgarnesi. Er húsnæði fyrirtækisins eftir þessa stækkun rúmlega 4.000 fermetrar að stærð.