TÓNLISTARMAÐURINN Pétur Grétarsson hefur sent frá sér geislaplötu með frumsömdum verkum úr leikritinu Grandavegur 7. Þetta er fyrsta geislaplata Péturs sem auk þess að sinna djassleik og kennslu hefur á síðustu árum samið tónlist við fjölda leikverka. Á geislaplötunni eru 20 verk, bæði heilleg lög og stef úr verkinu.
Tónlist úr Grandavegi 7
TÓNLISTARMAÐURINN Pétur Grétarsson hefur sent frá sér geislaplötu með frumsömdum verkum úr leikritinu Grandavegur 7. Þetta er fyrsta geislaplata Péturs sem auk þess að sinna djassleik og kennslu hefur á síðustu árum samið tónlist við fjölda leikverka. Á geislaplötunni eru 20 verk, bæði heilleg lög og stef úr verkinu.
Pétur segir óvenju skamman aðdraganda að vinnu sinni við leikritið Grandavegur 7 og útgáfu geislaplötunnar. "Þó ekki liggi nema þriggja mánaða vinna að baki verkunum hefur sú vinna verið óvenju frjó og skemmtileg og því ákvað ég að senda tónlistina frá mér á geislaplötu, kannski ekki síst til að heiðra þessa skemmtilegu vinnu," segir Pétur. Honum telst til að þær leiksýningar sem hann hafi tekið þátt í, ýmist sem hljóðfæraleikari eða höfundur verka, séu orðnar um 30 talsins. Bakgrunnur hans í tónlist er í heimi djassins og Pétur segir að þegar þannig sé háttað fyrir tónlistarfólki sé það að semja tónlist órjúfanlegur hluti af tónlistarflutningnum og þá sé undir hælinn lagt hvort menn vinni áfram með sinn spuna.
Pétur hefur áður unnið með Kjartani Ragnarssyni leikstjóra og segir samstarf þeirra með miklum ágætum, Kjartan sé frjór, hann liggi ekki á skoðunum sínum og hafi með því skapandi áhrif á samstarfsfólk sitt. "Auk þess hefur góður skáldskapur tilhneigingu til að fela í sér lausnina," segir Pétur. Þó svo að tónlistin sé algerlega sniðin að verkinu og sé í raun sem ein viðbótarpersóna þess segir Pétur að verkin á geislaplötunni séu sett fram án allra skilyrða eða beinna tengsla við leikverkið. Hann segir jafnframt að þó að tónlistin sé samin við leikverk þá sé ekki til neitt fyrir honum sem kallast gæti leikhústónlist, tónlist sé fyrst og síðast bara tónlist, sama hvar hún er leikin. "Það eina sem maður getur gert er að hlusta á það sem er að gerast í kringum mann og leyfa hlutunum að verða til," segir Pétur.
Ásamt því að semja lögin útsetur og leikur Pétur á öll hljóðfæri. Hljóðvinnslu annast hann ásamt þeim Jóni Óskari Gíslasyni og Sveini Kjartanssyni. Leikhópurinn sér um sönginn og raddsýni í verkunum og Jóhann Sigurðarson leikari syngur einsöng í laginu Amore. "Ég bjó til bulltexta á ítölsku, sem er uppfullur af klisjum um ástina því faðirinn, sem Jóhann leikur, er maður ástarinnar. Það stóð reyndar ekki til að lögin yrðu svona mörg heldur yrði fremur um hljóðsetningu verksins að ræða. Síðan komu upp aðstæður í verkinu sem buðu upp á lagaflutning og það kom mér sjálfum á óvart þegar lögin tóku að spretta fram hvert af öðru."
Pétur Grétarsson