Fallegir ósigrar, fyrsta skífa hljómsveitarinnar Andhéra. Liðsmenn eru Örvar Þóreyjarson Smárason gítarleikari og söngvari, Eyþór Ingi Eyþórsson gítarleikari, Gunnar Tynes bassaleikari, Númi Þorkell Thomasson trommuleikari og Finna hljómborðsleikari. Hljómsveitin semur lögin í sameiningu en Örvar texta. Smekkleysa gefur út. 35,59 mín.
Ekki bregðast Andhérar TÓNLIST Geisladiskur FALLEGIR ÓSIGRAR Fallegir ósigrar, fyrsta skífa hljómsveitarinnar Andhéra. Liðsmenn eru Örvar Þóreyjarson Smárason gítarleikari og söngvari, Eyþór Ingi Eyþórsson gítarleikari, Gunnar Tynes bassaleikari, Númi Þorkell Thomasson trommuleikari og Finna hljómborðsleikari. Hljómsveitin semur lögin í sameiningu en Örvar texta. Smekkleysa gefur út. 35,59 mín. SMEKKLEYSURÖÐIN góða Skært lúðrar hljóma heldur áfram af krafti og fyrir stuttu kom út sjöundi diskurinn í þeirri röð með hljómsveitinni Andhéra. Fyrri plötur hafa verið hver annarri betri og ekki bregðast Andhérar, því þessi frumraun þeirra er bráðvel heppnuð, fersk og skemmtileg. Andhéri leikur gítarpopp sem er einfalt að allri gerð og að sama skapi hnitmiðað; byggir á klifun og endurtekningu. Gott dæmi um það er annað lag disksins, Stundum veit ég ekki alveg hvar ég er, sem er frábærlega skemmtilegt og vel sungið. Söngurinn er annars snöggur blettur á Andhéra, og full falskur á köflum, til að mynda í upphafi Vonlausrar baráttu um gleðina og undir lok Kanínuøen. Örvar gerir þó víða vel í sínum falsettusöng, til að mynda er söngur hans í Stundum veit ég ekki alveg hvar ég er bráðgóður og viðeigandi. Andhéri hefur bætt við sig hljómborðsleikara frá því sveitin tók þátt í Músíktilraunum Tónabæjar í upphafi árs og kemur skemmtilega út. Finna bætir víða smekklega við hljómborðum, til að mynda í Vonlausri baráttu við gleðina og aftur í Kanínuøen þar sem gervileg hljómborðshljóð setja réttan blæ á lagið. Aðrir hljóðfæraleikarar standa sig og vel, best þó Númi trommuleikari sem er hvarvetna nálægur með frumlegar lausnir og hugmyndir, til að mynda í Plútó. Hápunktur plötunnar er tólf mínútna ópus, Leyniskyttublús, sem byrjar skemmtilega seiðandi þar sem Örvar fer á kostum í súrrealískum spuna í textanum: "Ólífur í ansi glærri krús / í bakpokanum já, já / ég er fullur af víni / ó ég klifra upp á hús / / skapahár, skapahár með lús / ólífur í ansi glærri krús / rotið egg er maður eða mús / leyniskyttu, leyniskyttublús" sem fellur vel að uppbyggingu lagsins og spinnur áfram eftir því sem stemmningin magnast þar til hún nær hámarki í kröftugum trumbuslætti og brotnum gítarhljómum, en tekur svo óvænta stefnu í mars út í óvissuna, í bjögun og upplausn. Afbragðs endir á afbragðs plötu. Fallegir ósigrar er hin besta skemmtun og Andhéri kemur sér kyrfilega fyrir í fremstu röð íslenskra nýbylgjusveita. Þó hnökra megi finna á skífunni, er enginn þeirra veigamikill og ástæða til að skora á Andhéra að gefa meira út sem fyrst. Árni Matthíasson Morgunblaðið/Ásdís

HLJÓMSVEITIN Andhéri, Örvar Þóreyjarson Smárason gítarleikari og söngvari, Eyþór Ingi Eyþórsson gítareikari, Gunnar Tynes bassaleikari, Númi Þorkell Thomasson trommuleikari og Finna.