Í SKÝRSLU utanríkisráðherra um stöðu Íslands og breytingar og horfur í alþjóðlegu umhverfi segir að rótgróið samstarf Norðurlandaþjóða sé sem fyrr grundvallarþáttur í íslenzkum utanríkismálum. Þrjár stoðir
»Norrænt samstarf

Í SKÝRSLU utanríkisráðherra um stöðu Íslands og breytingar og horfur í alþjóðlegu umhverfi segir að rótgróið samstarf Norðurlandaþjóða sé sem fyrr grundvallarþáttur í íslenzkum utanríkismálum.

Þrjár stoðir

Í SKÝRSLU til Alþingis segir utanríkisráðherra m.a.:

"Með breyttum áherzlum í samstarfi Norðurlanda, sem staðfestar voru með breytingum á Helsingforssamningnum á aukaþingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í september 1995 og tóku gildi í byrjun árs 1996, eru stoðir Norðurlandasamstarfsins nú þrjár. Þær eru samstarf innan Norðurlanda, samstarf um Evrópumál og samstarf Norðurlanda við grannsvæði. Enn fremur gætir nú aukinnar umfjöllunar um öryggis- og varnarmál á vettvangi Norðurlandasamstarfsins. Ljóst er að þessar breyttu áherzlur í samstarfi Norðurlanda hafa gætt það nýju lífi."

Evrópusamstarf

"ÞÓTT Norðurlöndin hafi valið sér mismunandi leiðir hvað varðar Evrópusambandið og samstarf á sviði öryggismála í ljósi mismunandi hagsmuna hefur það ekki haft deyfandi áhrif á þátttöku ríkjanna í Norðurlandasamstarfinu. Aðild Svíþjóðar og Finnlands að Evrópusambandinu hefur t.d. skerpt umræðu og margvíslegt samstarf Norðurlanda í málefnum sambandsins. Sameiginlegir hagsmunir Norðurlanda á vettvangi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins hafa á skömmum tíma leitt til nánara samráðs um einstök málefni, bæði í höfuðborgum landanna og í Brussel. Skipulag upplýsingastreymis frá stofnunum Evrópusambandsins til Norrænu ráðherranefndarinnar, Norðurlandaráðs og höfuðborga Norðurlanda er einnig í stöðugri endurskoðun ...

Náið samráð Norðurlanda kom skýrt fram á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins. Í því sambandi má einnig minna á samstöðu og ítarlegt samstarf vegna Schengen-samningsins. Haldnir eru reglubundnir fundir ráðherra ríkjanna fimm, embættismanna og sérfræðinga. Náin tengsl á öðrum sviðum, t.d. innan Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana, verða áfram mikilvæg.

Samstarf á sviði öryggis- og varnarmála setti sterkan svip á þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember í fyrra ... Íslendingar eiga nú áheyrnarfulltrúa á fundum varnarmálaráðherra Norðurlanda."