Jólatónleikar á Hellissandi
Hellissandi. Morgunblaðið.
AÐ lokinni messu í Ingjaldshólskirkju sunnudaginn 14. desember
fóru fram jólatónleikar Tónlistarskólans á Hellissandi. Tónleikarnir fóru fram í nýja safnaðarheimilinu sem hentar sérstaklega vel til slíkra tónleika. Húsfyllir var á tónleikunum. Fjöldi nemenda kom þar fram undir stjórn skólastjórans Kay Wiggs Lúðvíksson og léku nemendur á hin margvíslegustu hljóðfæri. Þótti flestum aðdáunarvert hvað nemendur hafa náð góðum árangri og hvað tónlistarlíf eflist hér hröðum skrefum. Það er mikill menningarauki að slíkum tónleikum.
Meðan á tónleikunum stóð var boðið upp á kaffiveitingar sem stuðningskonur tónlistarskólans stóðu að. Var það af miklum myndarskap fram borið. Þótt ekki sé langur tími liðinn frá því að nýja safnaðarheimilið var tekið í notkun, er þegar komið í ljós hvað það ætlar að verða menningarlífi í sókninni til mikillar eflingar.