EÐALFISKUR hf. í Borgarnesi er rúmlega 10 ára gamalt fyrirtæki en það var stofnað árið 1987. Rekstur þess gekk misvel fyrstu árin, en að undanförnu hefur hann gengið vel að sögn Ragnars Hjörleifssonar framkvæmdastjóra. Er tíðindamaður Mbl. kom þar við fyrir skömmu sagði Ragnar að árið 1997 yrði besta árið í sögu félagsins frá upphafi og stefni í toppsölu.
Eðalfiskur í Borgarnesi með sitt besta rekstrarár frá upphafi Fram- leiðslugeta fullnýtt og mikil söluaukning Borgarnesi. Morgunblaðið. EÐALFISKUR hf. í Borgarnesi er rúmlega 10 ára gamalt fyrirtæki en það var stofnað árið 1987. Rekstur þess gekk misvel fyrstu árin, en að undanförnu hefur hann gengið vel að sögn Ragnars Hjörleifssonar framkvæmdastjóra. Er tíðindamaður Mbl. kom þar við fyrir skömmu sagði Ragnar að árið 1997 yrði besta árið í sögu félagsins frá upphafi og stefni í toppsölu. Þessi aukning er bæði á markaðnum hérlendis og einnig erlendis, sérstaklega á Ítalíu. Ítalski samningurinn er til fimm ára og hljóðar upp á 200 milljónir króna. En hann bætist ofan á góða sölu til annarra Evrópulanda, sem og til Bandaríkjanna. Auka þarf afkastagetuna Forráðamenn fyrirtækisins standa frammi fyrir þeirri spurningu hvernig auka megi afkastagetu fyrirtækisins til að anna aukinni eftirspurn. Sala hefur aukist mikið að undanförnu á framleiðsluvörum fyrirtækisins, einkum á reyktum laxi. Stjórnendur Eðalfisks hafa ekki viljað fara út í sprautusöltun heldur er pækilsöltun viðhöfð. Ennfremur er fiskurinn látinn bíða ákveðinn tíma svo að hann nái að "taka sig" milli sumra framleiðsluþáttanna. Í ákveðnum tilfellum skiptir það sólarhringum. Allt þetta telja Eðalfisksmenn óhjákvæmilegt til að gæði vörunnar skeri sig úr á markaði. Þeir þykjast einnig hafa sönnun fyrir því í hinni miklu eftirspurn sem orðin er. Vitna þeir í ummæli seljenda sem öll eru á einn veg. Þessi mikla vöruvöndun veldur jafnframt ákveðnum örðugleikum þegar mikið liggur á að auka framleiðsluna. Ragnar framkvæmdastjóri segir að þó leyst verði úr þessum vanda á næsta ári þurfi e.t.v. að takmarka söluna á tímabili, þar til aukningu er náð. Þá að sjálfsögðu án þess að fórna neinum þeim gæðum sem einkenna vöruna í dag. Engin yfirbygging Starfsmennirnir benda á að fleira hafi orðið til að skjóta styrkari stoðum undir fyrirtækið. Yfirbygging hefur ekki íþyngt rekstrinum. Á skrifstofu hafa einungis verið tveir menn. Nú er svo komið að þeir anna ekki álaginu. Framkvæmdastjórinn hefur sjálfur orðið að annast alla yfirstjórn og hafa bæði umsjón með framleiðslu- og markaðsmálum innanlands sem utan. Ungur viðskiptafræðingur hefur séð um fjármál, bókhald og öll önnur almenn skrifstofustörf. Sama dag og blaðamann bar að tók til starfa stúlka á skrifstofu fyrirtækisins. Sú fyrsta í sögu núverandi stjórnenda. Gott hráefni Afbragðsgott hráefni er önnur gild ástæða fyrir góðri stöðu Eðalfisks. Rifós í Kelduhverfi sér fyrirtækinu fyrir öllum laxi í framleiðsluna. Sú samvinna hefur staðið um árabil. "Rifósmönnum er hægt að treysta til fullnustu," segja þeir hjá Eðalfiski. Allt hráefnið er fengið ferskt. Aldrei er unnið úr frystum laxi. Hann kemur ferskur í Borgarnes og fer strax í vinnslu. Laxinn sem kom að norðan fyrir síðustu helgi fer nú í vikulokin út til Ítalíu. Hann verður þar í kæliborðum stórmarkaðanna þegar á þriðjudegi! Á markað innanlands kemst hann fjórum dögum fyrr ­ meira munar ekki á tíma. Fjölgun starfsfólks framundan Hin mikla eftirspurn hjálpar upp á rekstrarútkomuna, því ekki er þörf á að sinna öðrum en þeim sem vitað er að tryggir eru í viðskiptum, hér á landi sem erlendis. Af því getur leitt drjúgan sparnað. Henni er einnig að þakka að birgðahald er lítið sem ekkert. Hráefnið frá Rifósi er unnið og fer allt út jafnóðum. Hjá Eðalfiski starfa að jafnaði 22, en framundan er að sjálfsögðu að fjölga starfsmönnum, svo sem fram hefur komið. Morgunblaðið/Ingimundur ÚR VINNSLUSAL Eðalfisks í Borgarnesi.