Norðmaðurinn Finn Christian Jagge sigraði á heimsbikarmótinu í svigi í Sestriere á mánudaginn. Valur B. Jónatansson settist niður með honum eftir sigurinn og spurði hann m.a. um möguleika Kristins Björnssonar í vetur.
Norðmaðurinn Finn Christian Jagge segir að Kristinn Björnsson eigi fyrst og fremst að einbeita sér að því að komast inn í fyrsta ráshóp

Hefur

næga

tækni og

hraða

Norðmaðurinn Finn Christian Jagge sigraði á heimsbikarmótinu í svigi í Sestriere á mánudaginn. Valur B. Jónatansson settist niður með honum eftir sigurinn og spurði hann m.a. um möguleika Kristins Björnssonar í vetur.

Norðmaðurinn Finn Christian Jagge hefur verið með í heimsbikarkeppninni á skíðum síðan 1986, eða í ellefu ár. Hann þekkir því vel til í heimi þeirra bestu. Hann varð ólympíumeistari í svigi í Albertville 1992 og í sjötta sætti á síðustu leikum í Lillehammer 1994. Þótt hann sé orðinn 31 árs hefur hann aldrei byrjað keppnistímabilið eins vel og í vetur ­ sigraði í Sestiere á mánudag og varð þriðji, á eftir Thomasi Stangassinger og Kristni Björnssyni, í fyrsta svigmótinu í Park City í síðasta mánuði.

Jagge segir að keppnin í heimsbikarnum sé harður heimur og erfitt fyrir unga skíðamenn að festa sig í sessi á meðal þeirra bestu í fyrsu atrennu. "Ef við skoðum þá skíðamenn sem eru í fyrsta ráshópi núna hefur hann lítið breyst síðustu fjögur fimm árin, það eru nánast sömu 15 sem skipa fyrsta ráshóp. Það getur alltaf komið upp einn og einn skíðamaður sem slær í gegn á einu móti en það er mjög erfitt og fátítt að fylgja því eftir og gera það aftur. Það þarf mikinn stöðugleika til að halda sér í fremstu röð mót eftir mót," sagði Jagge við blaðamann Morgunblaðsins í Sestriere.

Erfitt að endurtaka leikinn

Kristinn Björnsson náði öðru sæti í Park City, getum við búist við að hann komast aftur á verðlaunapall í heimsbikarnum í vetur?

"Já, það gæti alveg eins gerst. Flestir biðu spenntir eftir að sjá hvað hann gerði í Sestriere en því miður fór hann snemma út úr og það þarf ekki að koma á óvart. Það er mjög erfitt fyrir hann að endurtaka það sem hann gerði í Park City. Fyrir hann var það mikil upplifun að komast á pall í Bandaríkjunum og hann fékk mikla athygli sem er oft erfitt að höndla. Sem dæmi um það voru fréttamenn frá Íslandi hér í Sestriere að fylgjast með honum sérstaklega og það hefur sín áhrif á hann. Núna hugsar hann öðruvísi og einbeitingin verður önnur en áður. Hann þarf að læra þetta eins og annað sem fylgir því að vera í fremstu röð og það tekur tíma."

Vantar stöðugleika

"Líklega hugsaði hann um of um að endurtaka leikinn frá því í Bandaríkjunum hér í Sestriere. Ég held að hann ætti fyrst og fremst að einbeita sér að því að komast inn í fyrsta ráshóp. Hann hefur enn ekki nægilegan stöðugleika og reynslu til að berjast um verðlaunasæti á hverju einasta heimsbikarmóti. Hann þarf að hugsa um að komast á meðal þrjátíu fyrstu í fyrri umferð og ná þannig inn í síðari umferð. Klára mót og ná sér í fleiri heimsbikarstig og færast þannig smátt og smátt ofar í rásröðinni. Rásröðin skiptir miklu máli í heimsbikarnum eins og dæmin sanna."

Hraðinn og tæknin til staðar

Jagge talar af reynslu og segir að ef Kristinn næði að komast í síðari umferð í næstu mótum og ná þannig í fleiri heimsbikarstig yrði þess ekki langt að bíða að hann festi sig í sessi á meðal 15 bestu. "Kristinn hefur næga tækni og hraða til að vera í fremstu röð en það tekur tíma og það má ekki vera með óraunhæfar kröfur til hans. Hann sýndi það í Park City að getan er til staðar. Ég hef reyndar fylgst með honum og veit að hann er til alls líklegur í framtíðinni. Hann er enn ungur og er að stíga fyrstu spor sín í heimsbikarnum og það er meira en að segja það."

Ytri aðsætður þurfa að vera í lagi

Hefur þú trú á því að hann geti orðið einn af bestu skíðamönnum heims?

"Já, hann hefur hæfileikana. En það er ekki allt, það þurfa ýmsar aðrar ytri aðstæður líka að vera í lagi. Hann verður að fá að æfa við bestu aðstæður hverju sinni án þess að hafa af því fjárhagslegar áhyggjur. Ég held að hann hafi haft gott af því að æfa með Finnum því þeir eru með góðan þjálfara, Austurríkismanninn Christian Leitner. Það er líka að skila sér í betri árangri í vetur. Hann hefur mikið þurft að basla í þessu einn og það er því undravert hveru langt hann hefur náð. Það er erfitt að vera einn í landsliði vegna þess að það er enginn til að halda uppi heiðri landsins ef hann fellur úr keppni. Þessu er ólíku háttað hjá okkur Norðmönnum þar sem maður kemur í manns stað. Við erum með svo marga að þó einn heltist úr lestinni er hægt að treysta á aðra í liðinu."

Getum við Íslendingar átt von á því að Kristinn komist á verðlaunapall á Ólympíuleikunum í Nagano?

"Já, því ekki það. Hann getur alveg hitt á eitt mót aftur og það gæti alveg eins verið í Nagano. Það þarf oft heppni til á Ólympíuleikum ólíkt því sem er í heimsbikarnum þar sem um mótaröð er ræða."

Sýndi takta í Madonna

En áttir þú von á því fyrirfram að Kristni tækist að komast á verðlaunapall í Park City þar sem hann var m.a. á undan þér?

"Nei, satt að segja bjóst enginn við því. En hann sýndi það í fyrri umferðinni á heimsbikarmótinu í Madonna í fyrra, að hæfileikarnir eru til staðar. Hann keyrði frábærlega en keyrði út úr rétt áður en hann kom í markið. Hann hefði þá náð einum af fimm til átta bestu tímunum. Þá fyrst fóru aðrir skíðamenn að veita honum athygli. Hann hefur átt eina og eina góða ferð en aldrei náð að skila sér í mark eftir báðar umferðirnar fyrr en í Park City. Við vissum því að hann hefði hraðann, en það hefur vantað meira öryggi hjá honum. Ég veit að með meiri reynslu kemur aukið öryggi og það er það sem hann er að öðlast núna."

Styrkir stöðu Norðurlandabúa

Jagge sagðist gleðjast yfir því að Íslendingar væru að eignast skíðamann í fremstu röð. Hann sagðist muna eftir öðrum góðum skíðamanni frá Íslandi, Sigurði H. Jónssyni, sem nú er látinn. "Sigurður var mjög efnilegur skíðamaður á sínum tíma og hefði getað náð langt, hann hætti allt of snemma. Við Norðmenn teljum okkur eiga aðeins í Kristni því hann var í skíðamenntaskólanum í Geilo og lærði mikið þar. Vonandi nær hann að festa sig í sessi í heimsbikarnum svo við Norðurlandabúar getum styrkt stöðu okkar gagnvart Austurríkismönnum sem hafa verið mjög öflugir í heimsbikarnum undanfarin ár," sagði Jagge, sem keppti á Andrésar Andar-leikum á Akureyri sem gestur þegar hann var 12 ára. Þessi geðþekki Norðmaður sagðist vonast til að geta heimsótt Ísland aftur og bað fyrir kveðjur til Íslands.

Reuters NORÐMAÐURINN Finn Christian Jagge sigraði á heimsbikarmótinu í svigi í Sestriere, er hér á fullri ferð í brautinni.