Einkafjármögnun á ekki við
HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra telur ekki rétt að rekstur Leifsstöðvar verði boðinn út í heild sinni. Þá telur hann að einkafjármögnun eigi ekki við þegar flugstöðin verður stækkuð.
Verslunarráð hefur hvatt til þess að ráðist verði í stækkun Leifsstöðvar hið fyrsta og rekstur hennar boðinn út. Ráðið taldi að verkefnið væri kjörið fyrir svokallaða einkafjármögnun.
Utanríkisráðherra er ósammála því að einkafjármögnun eigi við í þessu tilviki og telur nauðsynlegt að ríkið eigi flugstöðina og hafi yfirumsjón með rekstri hennar. "Ég minni á að hlutverk Leifsstöðvar er tvíþætt samkvæmt samningi við Bandaríkjamenn, þ.e.a.s. bæði þjónustulegs og hernaðarlegs eðlis. Bandaríkjamenn tóku þátt í uppbyggingu hennar gegn því að þeir fengju að nýta hana ef hættuástand skapast."
Halldór segir að vinna við stækkun Leifsstöðvar verði boðin út og þannig verði tryggt að hún verði eins ódýr og kostur er. "Í sjálfum rekstrinum hefur stefnan verið sú að einkaaðilar taki að sér sem flesta þætti og að því verður unnið áfram. Flestar einingar í stöðinni verða boðnar út og þar með er reynt að ná hámarksafrakstri af eigninni. Ég sé því ekki að ástæða sé til frekari breytinga að þessu leyti og hef efasemdir um að hægt væri að ná meiri tekjum með því að fá einkaaðila til að sjá alfarið um reksturinn," segir Halldór.