eftir Sören Olsson og Anders Jacobsson í þýðingu Jóns Daníelssonar. Bókaútgáfan Skjaldborg, 1997. 176 síður. ÞETTA er önnur bókin sem höfundar senda frá sér um Dúfu ­ Lísu. Nú er hún orðin 12 ára, lifir þetta undarlega skeið, þá líkami og sál takast hvað harðast á, og glíman sú er grimm.
Telpa eða kona?

BÆKUR

Barnasaga

DÚFA ­ LÍSA OG SONUR VINDSINS

eftir Sören Olsson og Anders Jacobsson í þýðingu Jóns Daníelssonar. Bókaútgáfan Skjaldborg, 1997. 176 síður.

ÞETTA er önnur bókin sem höfundar senda frá sér um Dúfu ­ Lísu. Nú er hún orðin 12 ára, lifir þetta undarlega skeið, þá líkami og sál takast hvað harðast á, og glíman sú er grimm. Sálin er barnssál, spurult sakleysið, ­ á enn hæfileikann til þess að vera sannur vinur, og þess hefir hún notið með syni vindsins, "skáldinu", og skólasysturinni Jessíku. Nú, svo er það þessi undarlegi skrokkur, hærra og hærra lætur í honum, engu líkara en hann þykist orðinn harpa vorsins. Svo hár er hljómur þessarar "hörpu", að sálin verður að grípa fyrir "eyru" og "augu", missir taktstig við "skáldið", Jessíku og skólann, tekur að troða dansinn með glæsipíunum. Gaman, ­ gaman syngur veröldin við leðurklæddri "konu" með farðaða vör og á háum hælum, en ekki lengi.

Sálin þroskast sem sé líka, og allt í einu áttar Dúfa ­ Lísa sig á mun þess sem er ekta og gervi.

Hún snýr við. Helmer, "skáldið", og Jessíka eru verur, sem hún vill ná takti við á ný. Það tekst, ­ þó ekki átakalaust, en það tekst, og reynslunni ríkari feta þau stig móti morgnum nýrra daga.

Höfundar segja söguna vel, lifa sig inn í þennan dularfulla heim, lýsa honum af lífsins nautn, ­ sænskt - klúrir á stundum.

Ungir táningar munu fagna þessari bók, skilja, að þeir eru ekki einir með gátur sínar og sársauka.

Þýðing Jóns er mjög góð, af vandvirkni unnin.

Prentvillupúkinn hefir læðzt inn á titilsíðu, merkt sér hana, prakkarinn.

Sig. Haukur