Sviptingar á alþjóðamarkaði hafa komið róti á hugi fjárfesta
BESTA ÁVÖXTUNIN 1998
FJÁRMÁL Á FIMMTUDEGI
Sigurð B. Stefánsson
SÍÐARI hluti ársins 1997 hefur verið sögulegur á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði vegna verðsveiflna frá Suðaustur-Asíu. Í síðari hluta októbermánaðar varð 5-8% lækkun á Bandaríkjamarkaði og í Vestur- Evrópu en verð er aftur orðið svipað núna og fyrir þá lækkun. Sviptingarnar hafa engu að síður komið róti á hugi fjárfesta og óvissa er meiri en fyrr. Hvernig er þá best að fjárfesta á árinu 1998?
Alþjóðlegum hlutabréfamarkaði má til hægðarauka skipta í þrjá hluta, Ameríku (Bandaríkin, Kanada og Suður-Ameríkulöndin), Evrópu og Asíu. Í Ameríku vegur Bandaríkjamarkaður um 90%, Kanada um 5% og Suður-Ameríkulöndin samtals um 5%. Markaðsvirði hlutabréfa í Bandaríkjunum er raunar 45% af alþjóðlegum markaði samtals og því leikur ekki vafi á að framvinda þar skiptir miklu máli.
Óvíða er gróska í atvinnulífinu meiri en einmitt í Bandaríkjunum. Samkeppni er hörð og nú hefur alþjóðleg samkeppni leitt til hagræðingarbylgju sem ristir hvergi dýpra. Árið 1996 var markaðsverðmæti fyrirtækja sem sameinuðust alls 1.000 milljarðar dollara (áttundi hluti af landsframleiðslu Bandaríkjamanna) en tveir þriðju þessara fyrirtækja voru í Bandaríkjunum og hagræðingaráhrif því hvergi meiri.
Sem dæmi má nefna samruna tveggja risabanka árið 1996, Chemical Banking og Chase Manhattan. Fyrir sameiningu voru tveir bankar, tvö bankaráð, tvær útlánadeildir, 600 útibú, 75 þúsund starfsmenn o.s.frv. Núna er eitt bankaráð, ein útlánadeild, bráðlega aðeins 500 útibú og stefnt er að því að komast af með 12 þúsund (16%) færri starfsmenn sem þá geta snúið sér að öðrum sviðum atvinnulífs þar sem gróska er og uppgangur. Án viðbótarstarfsmanna geta þær greinar ekki vaxið og dafnað. Án fækkunar við samruna og hagræðingu næst ekki framleiðniaukning í bankastarfsemi sem þarf til að gera hana arðbæra og samkeppnishæfa á alþjóðlegum markaði. Nýja bankanum, Chase Manhattan, hefur tekist að auka umsvif sín eftir samrunann og náðst hefur verulegur sparnaður í rekstri. Slík hagræðing er möguleg þegar hlutabréf eru á markaði og í eigu almennra fjárfesta. Á Íslandi er um þriðjungur atvinnustarfsemi í höndum fyrirtækja og stofnana í eigu ríkis og sveitarfélaga eða fyrirtækja þar sem eignarhald er með jafnvel enn óljósari hætti og þangað nær hagræðing markaðsins ekki.
Engin ein stærð ræður meiru um framvindu á hlutabréfamarkaði en aukning á hagnaði fyrirtækja. Lítið eitt hefur dregið úr hagnaðaraukningu á Bandaríkjamarkaði frá fyrri árum (sjá mynd) en hlutabréfamarkaður hefur verið í jafnvægi síðustu vikur (Dow Jones 30 rétt um 8.000). Horfur eru góðar þar þótt hækkun á verði hlutabréfa verði eitthvað minni árið 1998 en síðustu árin.
Á meginlandi Evrópu er hagvöxtur að glæðast og árið 1998 gæti orðið hagstæðara en mörg síðustu ár. Í maí 1998 ræðst hvaða ríki verða með í stofnhópi Evrópska myntbandalagsins og gengið á milli gjaldmiðla þeirra festist. Væntanleg hagræðingaráhrif af sameiginlegum peningamarkaði í ellefu löndum munu hleypa miklu lífi í viðskipti með hlutabréf þegar þar að kemur. Hvenær fjárfestar líta svo á að málið sé í höfn og byrja að kaupa er ekki ljóst á þessari stundu.
Óvissa á árinu 1998 verður mest í Asíu (sjá sérstaka umfjöllun hér á eftir) en þar hefur verð á hlutabréfum og gengi gjaldmiðla lækkað mikið á síðari hluta ársins 1997. Hlutabréf eru að jafnaði lágt hlutfall af eignum íslenskra fjárfesta. Hyggilegt er að auka vægi hlutabréfa ef það er lágt í jöfnum en staðföstum skrefum á næstu árum. Margur mun þó enn vilja halda sig við skuldabréf þótt ávöxtun sé lægri vegna stöðugleika og minni áhættu. Verðtryggð íslensk ríkisskuldabréf bera enn háa vexti (5 til 5,5% yfir verðbólgu) og fást til margra ára. Horfur eru á að verðbólga í flestum löndum muni fara rénandi næstu misseri og ávöxtun á erlendum skuldabréfamarkaði gæti einnig reynst viðunandi.
HLUTABRÉF
Lækkandi verð ber vott um að fjárfestar trúi ekki á framtíðina
HVER ERU SKILABOÐIN?
HLUTABRÉFAVERÐ á Íslandi hefur farið lækkandi síðan í maí sl. (sjá mynd) eða í nærri átta mánuði samfleytt. Augljós skýring er að fjárfestar hafi talið hlutabréfaverð þurfa leiðréttingar við eftir 37 mánaða samfellt hækkunartímabil (frá því í mars 1994). Önnur skýring er að aukning í hagnaði fyrirtækja á árinu 1997 (sem kom að hluta fram í milliuppgjörum fyrir fyrri hluta ársins í sumar) reyndist minni en vænst var. Þessar skýringar og fleiri í líkum dúr eru út af fyrir sig ágætar. Hlutabréfaverð er að jafnaði framvísandi hagvísir sem segir til um framvindu í framleiðslu og eftirspurn á næstunni en ekki tafinn, þ.e. hagstærð sem lagast að öðrum eftir að upplýsingar um þær liggja fyrir. Íslenskir fjárfestar virðast eftir þessu vondaufir um árangur af rekstri fyrirtækja á næstu misserum.
Síðla sumars eða um haustið 1993 lá fyrir að umskipti höfðu orðið í íslenskum þjóðarbúskap og framleiðsla var tekin að aukast eftir stöðnun allt frá árinu 1988. Það var þó ekki fyrr en í mars 1994, eða hálfu ári síðar, sem fjárfestar tóku við sér og verð á hlutabréfum fór að hækka. Verð á hlutabréfum í sjávarútvegsfyrirtækjum byrjaði ekki að hækka fyrr en á árinu 1995 en þó var það einmitt í sjávarútvegi sem uppsveiflan átti upptök sín á árinu 1993. Á þeim tíma lék ekki vafi á því að fjárfestar á Íslandi vildu hafa vaðið fyrir neðan sig og tóku ekki að kaupa hlutabréf fyrr en fullvíst þótti að gróði var í uppsiglingu.
Ef til vill er hlutabréfaverð á Íslandi enn "tafinn" hagvísir og án forsagnargildis. Lýsi það að einhverju marki væntingum manna um næstu ár gætu horfur verið lakari en spár Þjóðhagsstofnunar gefa til kynna (3,5% hagvöxtur árið 1998). Skilaboðin eru ef til vill ekki alveg ljós.
Hluthafar og verðandi hluthafar ættu þó ekki að láta hækkun eða lækkun á verði hafa of mikil áhrif á sig. Farsælast er að kaupa hlutabréf í smáum skömmtum en jafnt og þétt. Að reyna að hagnast af því að kaupa og selja á "hárréttum" tíma hefur ekki reynst vel í tímans rás. Fyrirtækið Ibbotson Associates í Chicago hefur nýlega sett fram eftirfarandi upplýsingar til að sýna fram á hættuna af því að reyna að hitta á að kaupa og selja á réttum tíma. Einn dollari sem varið var til kaupa á hlutabréfum í árslok 1925 var orðinn að 1.371 dollara 71 ári síðar eða í árslok 1996 (852 mánuðir). Ef fjárfestir hefði misst af ávöxtun 35 bestu mánaðanna hefði dollarinn frá 1925 aðeins orðið að 12,20 dollurum 1996 en sú ávöxtun er svipuð og af ríkisvíxlum á sama tíma. Hlutabréf fyrir einn dollara árið 1976 höfðu fimmtánfaldast í verði árið 1996 eða 20 árum síðar en án 15 bestu mánaðanna væri verðgildið aðeins tæplega fjórir dollarar. Þar eru skilaboðin skýr. Hlutabréf eru langtímafjárfesting og bera sem slík hærri ávöxtun en annað sem aðgengilegt er almennum fjárfestum.
ASÍUKREPPAN
Umbætur á fjármálamarkaði eru forsenda fyrir aðstoð frá Vesturlöndum
ÓVISSA RÍKIR UM EFNAHAGSBATA
NÆRRI hálft ár er liðið síðan órói hófst á gjaldeyris- og hlutabréfamarkaði í Suðaustur-Asíu. Hlutabréf í Tælandi, Malasíu, Indónesíu og á Filippseyjum hafa lækkað um 40%. Að auki hefur gengi gjaldmiðlanna lækkað um 30 til 35% og samtals nemur lækkunin 70 til 75%. Það er ekki að furða þótt alþjóðlegir fjárfestar séu mæddir en talið er að fjárstreymi frá ríkjum Austur-Asíu muni nema einum milljarði Bandaríkjadollara árið 1997. Japan á enn við erfiðleika að stríða í þjóðarbúskapnum og Suður- Kóreubúar hafa þegið 55 milljarða dollara aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og stórum iðnríkjum. Hver verða áhrifin á efnahagslíf í öðrum löndum?
Enn er ekki álitið að þau verði mikil. Hægari vöxtur í ríkjum Asíu mun draga úr eftirspurn þeirra eftir vörum og þjónustu frá Vesturlöndum og gengisfellingarnar gera vörur þeirra ódýrari. Aðeins 7% af útflutningi frá Evrópusambandinu renna til Asíu (utan Japans) eða 2% af landsframleiðslu. Útflutningur Bandaríkjamanna til Asíulandanna er um 20% en útflutningur er svo lágt hlutfall af landsframleiðslu að áhrif í heild eru lík og í ríkjum ES.
Áhyggjur manna beinast fremur að því að misvægi í Asíu kunni að hafa áhrif í öðrum nýiðnaðarríkjum þar sem fjármál eru ekki á eins traustum grunni og á Vesturlöndum. Brasilía og Rússland kynnu að verða fyrir barðinu á spákaupmönnum með líkum hætti og Asíuríkin og talin er nokkur hætta á að Kínverjar telji sig knúna til að lækka gengi gjaldmiðilsins í samkeppnisskyni. Jafnframt ríkir óvissa um hvernig, eða öllu heldur hvenær, Japönum tekst að koma lagi á fjármálakerfið heima fyrir þannig að hagvöxtur glæðist.
Efnahagsástand í Asíu er ekki síst rakið til ótraustra stoða í fjármálakerfinu. Sparnaður sem hlutfall af landsframleiðslu (sjá mynd) er afar hár á vestræna vísu og líkur því sem var á Íslandi um 1970. En hann er ekki ávaxtaður á frjálsum markaði fyrir skuldabréf og hlutabréf fremur en hér á þeim tíma heldur að mestu leyti í bankakerfinu sem lýtur forræði stjórnmálamanna. Stjórnvöld í hverju landi hafa ráðið miklu um útlán til óarðbærra fjárfestinga. Ófarir Íslendinga á áttunda áratugnum og framan af þeim níunda, þegar verðbólga fór yfir 100% og ávöxtun peninga í fyrirtækjum var ekki talin mikilvæg, eru mörgum í fersku minni.
Þegar fjármunir til fjárfestingar eru meiri en unnt er að ávaxta í atvinnulífinu leiðir offjárfesting til þess að ávöxtun fer sífellt minnkandi. Fjármálakerfi sem ekki er frjálst og þar sem upplýsingar um ávöxtun og arðsemi fyrirtækja eru ekki góðar og aðgengilegar fyrir fjárfesta felur í sér hættu á rangri fjárfestingu og minnkandi hagvexti og sívaxandi verðbólgu sem á endanum leiðir menn í ógöngur.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og iðnríkin hafa því sett þau skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð sinni við Suður-Kóreu, Tæland og Malasíu að mikil breyting verði gerð í frjálsræðisátt á fjármálamarkaði landanna. Alan Greenspan seðlabankastjóri Bandaríkjamanna lét þau orð nýlega falla af þessu tilefni að fjárfesting í höndum stjórnmálamanna "hafi óhjákvæmilega leitt til offjárfestingar og rangra ákvarðana á síðustu árum sem hafði í för með sér ranga nýtingu framleiðsluþátta, óarðbæra framleiðslu, taprekstur og loks afskriftir lána og töp í bankakerfinu". Alþjóðleg aðstoð án gagngerra umbóta, svo sem breytinga til að gera fjármálamarkað landanna skilvirkari, væri "verri en gagnslaus".
Höfundur er framkvæmdastjóri VÍB Verðbréfamarkaðs Íslandsbanka hf.