ÞAÐ styttist til jóla, mestu hátíðar ársins. Langt er síðan kapphlaupið í jólaundirbúningnum hófst. Augljóst virðist að þetta verða sömu verslunarjólin og undanfarin ár ef ekki enn magnaðri. Nú er hugsunin um "í það minnsta kerti og spil" ekki lengur í öndvegi. í amstri daganna gleymist oft besta gjöfin, hann sem í Betlehem fæddist og við minnumst um jólin.
Gleðileg
vímulaus jólÁrna Helgasyni:
ÞAÐ styttist til jóla, mestu hátíðar ársins. Langt er síðan kapphlaupið í jólaundirbúningnum hófst. Augljóst virðist að þetta verða sömu verslunarjólin og undanfarin ár ef ekki enn magnaðri. Nú er hugsunin um "í það minnsta kerti og spil" ekki lengur í öndvegi.
í amstri daganna gleymist oft besta gjöfin, hann sem í Betlehem fæddist og við minnumst um jólin.
En eitt gleymist oft og tíðum ekki, áfengið og þjónustan við Bakkus, jafnvel þó allt annað verði þá að sitja á hakanum. Það er ömurlegt í því góðæri sem nú er talið vera hve margir eru úti í kuldanum og það langoftast af völdum drykkjuskapar. Æ yngra fólk neytir áfengis, meira að segja skólarnir eiga í vök að verjast, að ekki sé talað um íþróttahreyfinguna sem nú hefur strikað yfir orðin: Áfengi og íþróttir eiga ekki samleið. Hvað skyldu upphafsmenn hreyfingarinnar hafa sagt ef þeir hefðu mátt líta þing íþrótta- og ólympíusambandsins og verða vitni að átökunum þar?
Ritstjóri DV segir í forystugrein 4. þ.m.: "Það var hins vegar köld gusa, sem samfélagið fékk frá ársþingi íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þegar tveir áfengissalar stóðu fyrir því, að þingið felldi tillögu stjórnarinnar um áfengisneyslu og áfengisauglýsingar. Það var hrikalegur álitshnekkir sambandsins. Þingið felldi bann við áfengisneyslu iðkenda, þjálfara og leiðtoga í keppnisferðum. Það felldi bann við neyslu tóbaks, áfengis og annarra fíkniefna á skemmtunum. Það felldi bann við auglýsingum á tóbaki og áfengi á íþróttamannvirkjum og búningum."
Það er hart að eftir því sem velmegun eykst skuli eiturnautnum vaxa ásmegin og þjóðin verða að taka afleiðingum og greiða milljónir á milljónir ofan til að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Ég hef áður minnst á hvernig SÁÁ hefur verið að kenna fólki að "umgangast" áfengi, allt í lagi sé að neyta þess í hófi og reglubundið. En tilgangurinn helgar auðvitað meðalið en hann er sá að hafa nóg að gera í meðferðinni og fá vel borgað fyrir það.
Góðtemplarareglan hefur alltaf boðað bindindi, það úrræði sem enginn þarf að sjá eftir að taka. En auðvitað kemur það illa við þá sem nota sér aumingjaskap annarra til að auðga sjálfa sig. Vonandi sjá stjórnendur landsins gegnum blekkingarvefinn, taka af skarið og veita þeim brautargengi sem vinna af hugsjón en ekki fjárgræðgi.
Senn eru komin jól. Verða þau okkur sannur gleðigjafi og án vímuefna? Ef við viljum það hvert og eitt getur slíkt gerst. Guð gefi að svo megi verða og við megum öðlast vímulaus og gleðileg jól.
ÁRNI HELGASON,
Stykkishólmi.