ÞEGAR þessar línur eru ritaðar eru fréttir að berast af því að ríkisstjórn Íslands hafi ekki í hyggju að undirrita alþjóðlegan samning um takmörkun á losun mengandi lofttegunda út í andrúmsloftið þrátt fyrir að hafa fengið vilyrði fyrir að geta aukið mengun um 10% á meðan flestar aðrar þjóðir heims eru samdóma um að draga úr loftslagsmengun til að forða stórkostlegum umhverfisslysum í framtíðinni.
Klúður í Kyoto

Guðmundi Rafni Geirdal:

ÞEGAR þessar línur eru ritaðar eru fréttir að berast af því að ríkisstjórn Íslands hafi ekki í hyggju að undirrita alþjóðlegan samning um takmörkun á losun mengandi lofttegunda út í andrúmsloftið þrátt fyrir að hafa fengið vilyrði fyrir að geta aukið mengun um 10% á meðan flestar aðrar þjóðir heims eru samdóma um að draga úr loftslagsmengun til að forða stórkostlegum umhverfisslysum í framtíðinni. Taka forráðamenn okkar ekki eftir allri umræðunni meðal veðurfræðinga og fleiri fagmenntaðra aðila um yfirvofandi hættu sem ríkjum heims stafar af hinni miklu mengun sem hefur dreifst út í andrúmsloftið? Ætla þeir að standa frammi fyrir alþjóð í framtíðinni með það á samviskunni að hafa mælt með aukinni mengun þegar fréttir hafa borist um það að Ísland gæti lagst í eyði vegna hinnar auknu mengunar, til dæmis ef Golfstraumurinn sveigir fram hjá landinu og það yrði ísi lagt?! Það er alls ekki víst að það verði á hinn veginn, það er að segja að Ísland hlýni þannig að jöklar bráðni og vatnsorka aukist til að geta knúið enn meiri járn- og steinsteypuferlíki, hvort sem þær heita virkjanir, álver eða stálver.

Þetta er einnig í andstöðu við það markmið sem ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að Ísland verði hreinasta land í heimi árið 2000. Ég legg því til að endurskoðað sé hvort ekki væri hyggilegra að við leggjum megináherslu á hreinleika og heilbrigði og verðum þekkt fyrir það á alþjóðavettvangi. Á það hefur verið bent að Ísland sé fyrst og fremst matvælaframleiðsluland, bæði hvað varðar sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir og því sé hentugt að hreinleikaímyndin haldist óskert. Á undanförnum árum hefur einnig verið rætt um þann möguleika að Ísland verði með alþjóðlegar heilsumiðstöðvar í fallegri náttúru innan um heitu hverina, til dæmis í tengslum við Bláa lónið. Ég tel að þetta sé mun meira heillandi mynd af landinu okkar, okkar kæra Íslandi, heldur en reykspúandi álver í öðrum hverjum firði.

Ég hvet ykkur lesendur því til að íhuga hvort ríkisstjórn okkar sé ekki á rangri braut og þurfi ekki hreinlega að fara frá ef hún áttar sig ekki í tíma á að hún getur verið að eyðileggja orðspor okkar á alþjóðavettvangi sem siðmenntuð og hugsandi þjóð. Málið er að við erum ekki Davíð einn í heiminum heldur hluti af stærra mannkyni sem hefur þann sameiginlega hag að veðurfar verði ekki það óhagstætt að íbúar þurfi að hrökklast af stórum landsvæðum í framtíðinni, til að mynda Íslandi.

GUÐMUNDUR RAFN GEIRDAL,

skólastjóri.