MAGNEA Tómasdóttir sópransöngkona hefur í haust starfað við óperustúdíó Kölnaróperunnar, sem er einskonar undirbúningur fyrir fulla atvinnumennsku í faginu. Er samningur Magneu til tveggja ára. Fimm söngvarar starfa í stúdíóinu og var Magnea annar tveggja sem teknir voru inn í hópinn í haust.
Magnea Tómasdóttir í óperustúdíói
Kölnaróperunnar
Fjölgar í "íslenskutónlistarnýlendunni"
MAGNEA Tómasdóttir sópransöngkona hefur í haust starfað við óperustúdíó Kölnaróperunnar, sem er einskonar undirbúningur fyrir fulla atvinnumennsku í faginu. Er samningur Magneu til tveggja ára.
Fimm söngvarar starfa í stúdíóinu og var Magnea annar tveggja sem teknir voru inn í hópinn í haust. Er starf hennar margþætt, óperusýningar og tónleikar á vegum stúdíósins, auk þess sem lítil hlutverk í óperuuppfærslum Kölnaróperunnar koma reglulega í hlut "lærlinganna".
"Þetta er mjög góður staður að byrja á," segir Magnea, sem lauk framhaldsnámi í söng frá Trinity College of Music í Lundúnum í fyrra. "Það er mikil óperuhefð í Þýskalandi og Kölnaróperan er í hópi tíu stærstu húsanna í Þýskalandi. Auk þess held ég að mín rödd henti betur í Þýskalandi en á Englandi, þar sem fólk hefur ólíkan smekk."
Fyrsta verkefni Magneu ytra var að syngja lítið hlutverk í Aidu eftir Verdi í Kölnaróperunni sjálfri. Í kjölfarið komu svo tónleikar nýliðanna í stúdíóinu en fyrir þá fékk hún góða dóma í Kölner Stadt-Anzeiger. Um þessar mundir er hún að æfa hlutverk Donnu Elviru í Don Giovanni eftir Mozart en sú sýning er samstarfsverkefni óperustúdíóa í Köln, Manchester, París og Mílanó. Er frumsýning fyrirhuguð í mars 1998 í Köln. Þá mun Magnea fara með lítið hlutverk í Macbeth eftir Verdi í Kölnaróperunni í vor.
Heim í febrúar
Magnea mun koma fram á ljóðatónleikum í Kirkjuhvoli í Garðabæ 14. febrúar næstkomandi en að öðru leyti hyggst hún alfarið einbeita sér að óperustúdíóinu í vetur, kynnast heimi atvinnumennskunnar úr návígi og læra tungumálið. Með vorinu kveðst hún á hinn bóginn þurfa að fara að leiða hugann að prufusöng, helst sem víðast, því engin trygging sé fyrir því að hún komist á fastan samning við Kölnaróperuna, þótt hún hafi verið í stúdíóinu.
Því fer fjarri að Magnea sé eini Íslendingurinn sem tengist Kölnaróperunni um þessar mundir. Í fyrrnefndum dómi í Kölner Stadt- Anzeiger er meira að segja gengið svo langt að kalla óperuna "íslenska tónlistarnýlendu". Skyldi svosem engan undra því þar starfa nú tveir aðrir söngvarar, Erlingur Vigfússon og Jóhann Smári Sævarsson, sem báðir störfuðu áður í óperustúdíóinu, auk þess sem sá þriðji, Kolbeinn Jón Ketilsson, kemur til starfa á hausti komanda. Þá er Gerður Gunnarsdóttir fiðluleikari fastráðin við hljómsveit Kölnaróperunnar og annar fiðluleikari, Una Sveinbjarnardóttir, leikur endrum og eins með hljómsveitinni.
Magnea Tómasdóttir