AÐ UNDANFÖRNU hefur átt sér stað nokkur umræða um embætti forseta Íslands og Norræna flutningamannasambandsins vegna heillaóska forsetans til fyrirtækisins á 10 ára afmæli þess. Það er gömul staðreynd að flutningastarfsgreinarnar eru innbyrðis mjög ólíkar.
Samtök flutningamanna

Það hefur komið skýrt fram í okkar röðum, segja Jónas Garðarsson og Birgir Björgvinsson , að flugfólkið nýtur eindregins stuðnings okkar hinna.

AÐ UNDANFÖRNU hefur átt sér stað nokkur umræða um embætti forseta Íslands og Norræna flutningamannasambandsins vegna heillaóska forsetans til fyrirtækisins á 10 ára afmæli þess.

Það er gömul staðreynd að flutningastarfsgreinarnar eru innbyrðis mjög ólíkar. Engu að síður er mikilvægt fyrir okkur að standa saman í baráttunni fyrir bættum kjörum og ekki síst fyrir rétti verkalýðsfélaga til að starfa að sínum málum.

Í umræðunni hefur embætti forseta Íslands verið gert að aðalatriði. Aðalatriðið er eftirfarandi:

1. Flugfélagið Atlanta gerir allt sem það getur til að komast hjá eðlilegum samskiptum við stéttarfélög launafólks. Lögfræðingar félagsins semja bréf í nafni hluta starfsmanna sem lýsa yfir að þeir vilji ekki afskipti viðkomandi stéttarfélaga af sínum málum.

2. Fyrirtækið ræður til starfa Íslendinga í gegnum erlend ráðningar- eða áhafnarleigufyrirtæki. Allt bendir því til þess að fólk með slíka ráðningarsamninga standi alfarið utan íslenska almannatryggingakerfisins, séu óskrifuð blöð hjá Tryggingastofnun Íslands.

3. Fyrirtækið hefur óspart notfært sér yfirlýsingu forsetans í markaðssetningu fyrirtækisins í samkeppni á erlendum vettvangi. Þar var fyrirtækinu lýst sem einkafyrirtæki eins og þau gerast best á Íslandi.

4. Fyrirtæki þetta mun skila heldur litlu til samfélagsins og standa í málarekstri og þrefi við íslensk skattayfirvöld vegna dagpeningagreiðslna til starfsmanna sinna, sem ekki hafa fengið önnur laun, en eiga erfitt með að sýna fram á að dagpeningarnir hafi ekki verið hluti af kaupi. Sorglegt ef satt er.

5. Það hefur ekki verið siður að embætti forseta Íslands skipti sér af vinnudeilum og alvarlegum ágreiningsmálum á íslenskum vinnumarkaði. Nú hefur forsetaritari lýst því yfir að hér verði breyting á. Fyrirtækjum verði framvegis hælt fyrir góða frammistöðu, sennilega án tillits til þess hvort þau heita Pizza 67 eða Atlanta og verði uppvís að skattsvikum. Þá má embættið líka búast við að friðhelgin umhverfis það rofni og trúnaðarbrestur verði gagnvart því.

Við sjómenn berjumst daglega við vandamál útflöggunnar, málefni farmanna og sjómanna sem ráðnir eru til starfa fyrir milligöngu áhafnaleiga úti í heimi á lægri kjörum en okkar fólk. Þessi ósómi í meðferð á fólki smitar af sér. Réttlausum mönnum um borð í ryðfúnum farskipum er nánast drekkt og svo kvitta þessir útgerðarmenn út tryggingaféð. Yfir 130.000 farmenn hafa farist til sjós í heiminum undanfarin 30 ár, eða yfir 4.000 manns á ári. Nýlega kom ég um borð í íslenskt fiskiskip erlendis með rússneska áhöfn. Þar var mönnum greitt kaup sem vart náði 14.000 ísl. kr. á mánuði. Dæmin verða stöðugt fleiri og verri á þeim vettvangi. Þessar útgerðir notfæra sér á svívirðilegan hátt fátækt og örbirgð þessa fólks sem í dag býr við hrunið fyrirkomulag kommúnismans.

Okkur sjómönnum finnst því réttindabarátta flugfólksins fyrir eðlilegri kjarasamningagerð eiga fullan rétt á sér og styðjum þetta fólk heils hugar. Okkur finnst að Verkamannasambandið mætti gera slíkt hið sama og skapa ekki sundrungu í okkar röðum í svo alvarlegu máli sem þessu. Forustumenn þeirra samtaka mættu minnast þess að í aðalmálgagni þeirra sjálfra forðum daga, Þjóðviljanum, var ekki alltaf talað af mikilli virðingu um sitjandi forseta landsins. Svona þjónkun við embættið nú vekur því margar spurningar. Væri hið sama upp á teningnum nú ef Davíð Oddsson sæti í þessu embætti? Ekki var þessi viðkvæmni upp á teningnum í fjölmiðlum þegar biskupinn lenti í sínum hremmingum ­ sem aldrei voru sönnuð. Við sjómenn frábiðjum okkur afmæliskveðjur forsetans til vafasamra útgerðarfyrirtækja, þó svo að þeim tækist að lafa í 20 ár og mundum mæta slíkum heillaóskum af fullri einurð, ekki hvað síst ef þær væru notaðar við markaðsöflun á alþjóðlegum vettvangi. Slík vinnubrögð eru herfileg misnotkun á embætti sem er sameiningartákn okkar allra og yrði ekki þoluð af okkar hálfu. Jafnframt munum við ekki sætta okkur við einhver afskipti Verkamannasambandsins af slíkum málum, heldur biðja það vinsamlegst að sinna láglaunavanda eigin félagsmanna.

Við vitum það fyrir víst að Borgþór Kjærnested hefur unnið af heilindum að málefnum okkar farmanna og við teljum hann hafa gegnt trúnaðarstörfum okkar allra í flutningageiranum innan NTF með mikilli prýði. Það er því ómaklega að honum vegið í þessu máli. Það á ekki að persónugera mál með þessum hætti. Sá trúnaðarbrestur sem orðinn er vegna ályktunar NTF er ekki milli íslenskra aðildarfélaga og Borgþórs Kjærnested, heldur milli æðstu forustu Verkamannasambandsins og okkar hinna sem eigum aðild að sambandinu. Það hefur komið skýrt fram í okkar röðum að flugfólkið nýtur eindregins stuðnings okkar hinna. Við væntum þess að sá stuðningur sé einnig fyrir hendi innan aðildarfélaga Verkamannasambandsins og meðal almennra félagsmanna þess.

Svo vonumst við til að forsetinn hverfi af þessari nýju braut embættisins svo að við getum haldið áfram að kjósa hann til þeirra góðu verka sem hann jafnframt hefur sinnt með mikilli prýði það sem af er kjörtímabilsins.

Jónas Garðarsson er formaður Sjómannafélags Reykjavíkur. Birgir Björgvinsson er stjórnarmaður í Sjómannafélagi Reykjavíkur.

Jónas Garðarsson

Birgir Björgvinsson