Skötustappa
SÁ siður, að borða skötu á Þorláksmessu, var lengst af helst stundaður á Vestfjörðum, enda var skatan
fremur tiltæk í sjónum þar en annars staðar rétt fyrir jól. Vestfirðingar borðuðu skötuna yfirleitt kæsta og stappaða með mörfloti. Í Sögu daganna eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing segir að það sé alkunna víða um heim að oftlega þyki fátækramatur síðar meir lostæti vegna þeirrar natni sem beita þurfti við gerð hans og eigi það við um Þorláksmessuskötuna. Ósennilegt sé að skata eða skötustappa hafi í upphafi verið hugsuð sem hátíðamatur. "Dæmi er um að ríkismönnum fannst lítilfjörlegt að hafa skötuna stappaða í mörfloti og vildu hafa hana í smjöri," segir Árni og vísar í gamlar stökur um heimilisbrag á stórbýli í Strandasýslu, sem bendi í átt til sömu mismununar þar sem húsbændum var ekki skömmtuð skötustappa:
Skötustappa skömmtuð var á Eyjum
allir fengu innan ranns
utan Bjarni og kona hans.
Bóndinn sjálfur borðaði smér og köku
en hans kona ystan graut
iðra síðan kenndi þraut
MAGNÚS Sigurðsson fiskkaupmaður í Hafrúnu þefar af skötubörðum.