Náttúra og hversdagsleiki
BÆKUR
Ljóð
GEGNUM EINGLYRNIÐ
eftir Harald S. Magnússon. Höfundur
gaf út. 1997 62 bls.
NÁTTÚRAN gegnir mikilvægu hlutverki í ljóðum Haralds S. Magnússonar í ljóðabók hans, Gegnum einglyrnið. Vatnsföll, tré, fjöll, fuglar, sjávardýr og önnur dýr, jafnvel stjörnumerkin og norðurljósin; náttúran eins og hún leggur sig. Öðrum þræðinum byggjast kvæði hans þó á augnablikum úr hversdagslífinu sem hann grípur upp og reynir að miðla með ljóðmyndum.
Skáldskapur Haralds er fremur hófstilltur, frekar myndir en líkingar. Ljóðin eru naum á orð og merkingu og í sumum ljóðunum er jafnvel of lítið sagt, þannig að lesandi veltir fyrir sér hverju eiginlega skáldið sé að miðla. Ljóðið Sunnudagur er eitt þessara ljóða:
Sælt er
að minnast,
allt lék
í lyndi,
létt um grund
var stigið.
Lifi lengi
ljúfar hugsanir
frá sólbjörtum
sumardegi.
Hér er eiginlega lítið sagt annað en að það hafi verið gaman, engri áþreifanlegri reynslu miðlað. Hverjar voru t.a.m. hinar ljúfu hugsanir? Lesandi fær einungis reykinn af réttunum svo að ljóðið missir marks.
Í sumum ljóðum tekst þó betur upp. T.d. sýnir höfundur á sér gamansamar hliðar í stöku orðaleikjum. Kvæðið Kona miðlar einum þeirra:
Minkaskinnið
í kápunni
klæðir eigandann.
Eiginmaðurinn
strýkur kápuna
mjúkum höndum.
Hún er rándýr.
Gegnum einglyrnið einkennist af fremur hófstilltum myndum úr hversdagslífi og náttúru. Í sumum kvæðum er kveðskapurinn fullþróttlítill. Í stöku ljóðum er þó ort af meiri skerpu og sannast sagna eru þau ljóð líklegri en önnur til að fanga athygli lesenda.
Skafti Þ. Halldórsson
Haraldur S. Magnússon