Gera mynd um furður Snæfellsjökuls
Hellissandi - Hér hefur verið á ferðinni 6 manna hópur kvikmyndagerðarmanna undir forustu kvikmyndagerðarmannsins Andys Robbins frá Kudos Productions Ltd. í London sem unnið hefur að gerð kvikmyndar um furður undir Snæfellsjökli. Fengu þeir meðal annars Kirkjukór Ingjaldshólskirkju til að syngja fyrir sig nokkur alkunn íslensk álfalög, mynduðu geimverumóttöku við rætur Snæfellsjökuls, síðan hafa þeir myndað nokkra merkilega álfasteina sem mikill átrúnaður er bundinn við. Fengu þeir nokkra Sandara til að segja frá þeim átrúnaði sem tengdur er þessum álfasteinum og atvikum sem tengjast þeim.
Þá fengu þeir Finnboga G. Lárusson sagnaþul frá Laugarbrekku til að segja sér merkilega sögu af hrossi sem hann týndi og leitað var ákaft en fannst síðan að lokum með óskiljanlegum hætti og varð Finnboga síðan mikill happagripur.
Þessi íslenski þáttur verður einn af sex sem hópurinn er að vinna að víðsvegar um heiminn og hingað komu þeir frá Ástralíu þar sem þeir gengu um á stuttbuxum í 25 stiga hita. Kvikmyndagerðarmennirnir létu vel af komu sinni og létu í ljósi mikla ánægju yfir því efni sem þeir höfðu náð að taka upp hér og töldu það verða til sýningar um allan heim ef vel tækist til með úrvinnslu.