ÁRNI Sigfússon, borgarstjóraefni sjálfstæðismanna, er ótvíræður skuldakóngur Reykjavíkur. Sem borgarfulltrúi í meirihluta sjálfstæðismanna í borgarstjórn 1990­94 átti hann verulegan þátt í að auka skuldir borgarsjóðs úr 4,9 milljörðum króna í 13,1 milljarð króna, en það er um 167% hækkun. Um þessar staðreyndir er ekki deilt.
Árni er skuldakóngur Reykjavíkur



Nú þykist Árni Sigfússon, segir Alfreð Þorsteinsson , hafa ráð undir hverju rifi við fjármálastjórn borgarinnar.

ÁRNI Sigfússon, borgarstjóraefni sjálfstæðismanna, er ótvíræður skuldakóngur Reykjavíkur. Sem borgarfulltrúi í meirihluta sjálfstæðismanna í borgarstjórn 1990­94 átti hann verulegan þátt í að auka skuldir borgarsjóðs úr 4,9 milljörðum króna í 13,1 milljarð króna, en það er um 167% hækkun.

Um þessar staðreyndir er ekki deilt. En um hitt vita færri, að þær örfáu vikur, sem Árni sat í stóli borgarstjóra á útmánuðum 1994, beitti hann sér fyrir 700 milljóna króna aukafjárveitingum utan fjárhagsáætlunar og jós þannig um 10 milljónum króna á dag úr annars þurrausnum borgarsjóði.

Nú kemur þessi sami borgarfulltrúi eins og frelsandi engill og þykist hafa ráð undir rifi hverju við fjármálastjórn Reykjavíkurborgar, sbr. Mbl.-grein hans sl. laugardag.

Reiknikúnstir Árna

Til fróðleiks fyrir lesendur Mbl. skulu birtar hér heildarskuldir borgarsjóðs á verðlagi í desember 1997, en þær eru sóttar í ársreikninga 1990­96 ásamt útkomuspá 1997 og áætlun fyrir 1998:

Ár milljarðar kr. 1990 4.938 1991 5.448 1992 7.962 1993 10.358 1994 13.193 1995 14.551 1996 14.551 1997 13.995 1998 13.995 Í téðri Mbl.-grein notar Árni Sigfússon sínar eigin reiknikúnstir og kemst að því að raunverulegar skuldir borgarsjóðs verði 16,6 milljarðar en ekki 13,9 milljarðar á næsta ári. En jafnvel þótt þessi reikningsaðferð væri notuð, hefðu skuldir borgarsjóðs í tíð Reykjavíkur-listans aðeins hækkað um 14% miðað við 167% á síðasta kjörtímabili sjálfstæðismanna, svo að ekki er sá samanburður heldur óhagstæður Reykjavíkur-listanum.

Strætó-skuldabréf Árna

Það er hins vegar broslegt, að Árni Sigfússon skuli gera athugasemd við það að gefið hafi verið út skuldabréf á vegum Félagsbústaða hf., sem lagar skuldastöðu borgarsjóðs.

Þetta er nefnilega nákvæmlega sama aðferð og Árni Sigfússon notaði, þegar SVR var breytt í hlutafélag. Þá var gefið út skuldabréf sem kom borgarsjóði til góða. Hvað hefur breyzt síðan?

Málflutningur Árna Sigfússonar er með þeim hætti, að sjálfstæðismenn hafa eðlilega áhyggjur vegna komandi borgarstjórnarkosninga. Það er því engin furða að leitað sé með logandi ljósi eftir nýjum frambjóðanda á lista sjálfstæðismanna til að draga athyglina frá oddvitanum seinheppna.

Höfundur er borgarfulltrúi R-lista í Reykjavík.

Alfreð Þorsteinsson