FLESTUM sjómönnum og útgerðarmönnum hlýtur að hafa orðið bumbult eins og mér varð þegar sjávarútvegsráðherra kemur með yfirlýsingar opinberlega sem stangast alveg á við veruleikann. Hann segir að í sjálfu sér hafi ekkert breyst fyrir útgerðina þegar kvótinn var settur á. Áður fólust verðmætin í veiðiskipunum sem máttu stunda veiðar. Þá hafi verðið á bátunum verið hátt.
Hvílík vitleysa

"Í engu kerfi viðgengst eins mikill sóðaskapur og þessu," fullyrðir Kristinn Arnberg . "Ráðamenn þjóðarinnar vita að þetta kerfi skapar þennan sóðaskap en loka eyrunum fyrir því."

FLESTUM sjómönnum og útgerðarmönnum hlýtur að hafa orðið bumbult eins og mér varð þegar sjávarútvegsráðherra kemur með yfirlýsingar opinberlega sem stangast alveg á við veruleikann. Hann segir að í sjálfu sér hafi ekkert breyst fyrir útgerðina þegar kvótinn var settur á. Áður fólust verðmætin í veiðiskipunum sem máttu stunda veiðar. Þá hafi verðið á bátunum verið hátt. Nú hins vegar sé verð skipa lágt en verðmætin liggi í aflaheimildum. Samtalan sé nokkurn veginn sú sama.

Nú þarf að kaupa aflaheimildir

Hvílík vitleysa. Það hlýtur sjávarútvegsráðherra að vita. Fyrir daga kvótakerfisins voru bátar seldir á tryggingamati. Mjög góð skip voru seld á rúmlega tryggingamati en þá þurfti að kaupa aukatryggingu fyrir mismuninum. Þetta gildir einnig í dag. Munurinn er hins vegar sá að nú þarf að kaupa aflaheimildir, hinn illræmda kvóta, til viðbótar.

Tökum dæmi. Bátur, ca. 25 brúttólestir, kostar segjum 25 milljónir króna sem einnig er mat tryggingafélagsins. Þetta er sambærilegt verð og fyrir daga kvótakerfisins, munurinn er hins vegar sá að kaupa verður aflaheimildir á þennan bát eða leigja af sægreifunum fyrir offjár. Fyrir þennan bát væri hæfilegt að kaupa kvóta fyrir 200 milljónir króna. Útgerðarmaður sem áður lagði 10 milljónir króna í útborgun á þessum báti varð að greiða af 15 milljóna króna láni. Í dag þarf þessi sami maður að greiða af 215 milljónum króna, sem er dæmi sem enginn heilvita maður leggur út í.

Uppsprengt verð

Margir eru hins vegar að reyna að þreyja þorrann með því að leigja kvóta fyrir uppsprengt verð eða 20 milljónir króna á ári. Svo þessi útgerðarmaður myndi glaður borga til samfélagsins 3% auðlindagjald. Það hafa alltaf verið miklar sveiflur í útgerð á Íslandi. Alveg frá fyrstu tíð hafa útgerðarfélög verið að koma og fara. Það verður erfitt fyrir stóru risana, sem búnir eru að meta sjálfa sig upp á tugi milljóna króna og 70% af matinu er kvóti syndandi einhvers staðar í Atlantshafinu og kannski hluti af honum á hrognastigi, að standa undir kröfum hlutahafanna þegar búið er að taka kvótann af því það er ekki spurning hvort heldur hvenær kvótinn fer af.

Þessu óréttlæti verður að linna. Þeir sem harðastir eru á að viðhalda kvótakerfinu eins og Halldór Ásgrímsson koma fram í fjölmiðlum og ljúga að alþjóð eins og hann gerði á flokksráðsfundinum hjá Framsókn um daginn. Hann sagði að ÚA myndi fara á hausinn ef fyrirtækið borgaði 70 milljónir í auðlindaskatt en ÚA var nýbúið að kaupa kvóta frá Suðurnesjum fyrir 1200 milljjónir og bát frá Vestfjörðum með kvóta fyrir 500 milljónir.

Sóðaskapur

Þorsteinn Pálsson sagði um daginn í viðtali á RÚV að hann myndi berjast fyrir því að viðhalda kvótakerfinu en fyrir hverju er hann að berjast? Ég fullyrði að í engu kerfi viðgengst eins mikill sóðaskapur og í þessu kerfi. Ráðamenn þjóðarinnar vita að þetta kerfi skapar þennan sóðaskap en loka eyrunum fyrir því. Kvótakerfið átti að stuðla að friðun og verndun á fiskistofnum. Aldrei hefur verið hent eins miklu af fiski í sjóinn og síðan þessu kvótakerfi var komið á. Sókn í aðra fiskistofna jókst og hefur nánast útrýmt sumum þeirra, til dæmis grálúðu og karfa.

Davíð Oddsson sagði í fréttum á RÚV að vitneskjan um lofthjúp jarðar væri ekki á háu stigi af því það hentaði honum í það skiptið en ég held að þekkingin um mengun lofthjúpsins sé meiri en sú sem fiskifræðin ræður yfir en það hentar honum ekki að tala svona um fiskifræði. Þá þarf hann að leyfa meiri þorskveiði og það vill ekki hagsmunahópur kvótakerfisins, því þá lækkar leigan á þorski. Á framboðsfundi í Keflavík fyrir síðustu alþingiskosningar sagði Davíð Oddsson að það væri ekkert mál að auka þorskkvótann um 20 þúsund tonn. Hvað væru 20 þúsund tonn á milli vina?

Búið að taka réttinn af fólkinu

Í júní 1996 áttu sægreifarnir sáralítinn þroskkvóta eftir til að leigja og var leiguverð komið upp í 97 krónur. Þá var farið fram á það að Þorsteinn Pálsson yki kvótann um 20 þúsund tonn og að Davíð stæði við stóru orðin, en þeir komu allir fram í sjónvarpi, Davíð, Þorsteinn og Kristján Ragnarsson og sögðu að aukning á þorskkvóta kæmi ekki til greina. Innan stjórnarflokkanna er kominn klofningur um þetta rangláta kvótakerfi. Sumir þingmenn eru að átta sig á því að þeir sitja ekki á næsta þingi nema þeir fái fólkið til að kjósa sig. Ég hef stundum orðið hissa, þegar þingmenn og sveitarstjórnarmenn eru að tala um byggðaröskun og tala um allt annað en vandann sem er kvótakerfið. Það er búið að taka réttinn af fólkinu til að fiska fiskinn sem syndir fyrir framan og inn á fjörðunum sem blómleg byggð stóð við og færa hann til Akureyrar eða eitthvert annað.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Vestfjarða, skrifar grein um byggðaröskun í DV 11.12. sl. Hann minnist ekki á vandann sem er kvótakerfið. Svo ætlar þessi maður að sækja þingstyrk sinn til Vestfjarða, verði honum að góðu. Það þótti ekki fréttnæmt hvorki á RÚV né Stöð 2 þegar DV birti frétt um kvótafærslur landsmanna og það kom í ljós að Suðurnesin ein leigðu 18 þúsund tonn af þorski á árinu 1996 fyrir 1,2 milljarða. Dágóður auðlindaskattur það, bara ekki borgaður í réttar hendur. Að lokum væri vert að menn veltu því fyrir sér hvernig á því stendur að í áratugi var hægt að veiða 500 þúsund tonn af þorski við Ísland árlega og að jafnaði mun meira ef reiknað er með að sumar þjóðir sem hér veiddu voru með meira en þær gáfu upp.

Höfundur er skipstjóri í Grindavík.

Kristinn Arnberg Sigurðsson