VELTA Danfoss á yfirstandandi fjárhagsári nam 13,1 milljarði danskra króna, sem er aukning upp á um einn milljarð danskra króna, eða 9%. Arðsemi jókst verulega vegna víðtækrar hagræðingar, strangs eftirlits með kostnaði og skilnings og átaks starfsmanna að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.


Uppgangsár hjá Danfoss

Nordberg, Danmörku.

VELTA Danfoss á yfirstandandi fjárhagsári nam 13,1 milljarði danskra króna, sem er aukning upp á um einn milljarð danskra króna, eða 9%.

Arðsemi jókst verulega vegna víðtækrar hagræðingar, strangs eftirlits með kostnaði og skilnings og átaks starfsmanna að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Hagnaður fyrir skatta nam um 965 milljónum danskra króna, sem er um 83% aukning miðað við næsta fjárhagsár á undan.

Veruleg söluaukning varð á flestum mörkuðum nema í Þýzkalandi, meiri á flestum sviðum en á fyrra fjárhagsári. Danfoss gerir ráð fyrir að sala haldi áfram að vera hagstæð 1998, en það álit byggist á því að þróunin í þýzkum efnahagsmálum haldi áfram að vera jákvæð og vegi upp á móti neikvæðum afleiðingum efnahagserfiðleikanna í fjarlægari Austurlöndum.

Starfsmönnum Danfoss Group fjölgaði um 1666 á árinu. Þar af störfuðu 580 í fyrirtækjum sem Danfoss keypti. Í Danmörku fjölgaði starfsmönnum um 126 í 8.719.

Danfoss keypti á tímabilinu DFanvalve A/S í Hasselager, Danmörku, 70% hlutabréfa í franska fyrirtækinu Oreg Group, TA Hydronics A/S í Noregi og Rico Holding Ltd í Suður-Afríku. Ein deild Danfoss hefur gengið í bandalag með brezka fyrirtækinu Brook Hansen Group og eignazt 50% hlutabréfa í Eurotec GmbH í Þýzkalandi.

Stórar verksmiðjur hafa verið teknar í notkun í Mexíkó, Kína og Slóveníu. Í Úkraínu er verið að koma á fót nýrri verksmiðju og í Póllandi hefur hornsteinn verið lagður að nýrri 13,800 fermetra verksmiðju. Ný skrifstofa og vöruhús eru í smíðum í Torino. Eigin sölufyrirtækjum hefur verið komið á fót í Chile, Lettlandi, Búlgaríu og Filippseyjum og söluskrifstofur hafa verið onaðar í Víetnam, Indónesíu og Belgrad.