Hornafirði-Árið 1996 fór sýslunefnd A-Skaftafellssýslu þess á leit við samgöngu- og ferðamálanefnd A-Skaft að gerð yrði stefnumótun í ferðaþjónustu fyrir svæðið. Nú tæpum 2 árum síðar er verkefninu lokið og gefur það nokkuð góða sýn fyrir ferðaþjónustuna að byggja á hér í sýslunni.
Ferðaþjónusta í Austur-Skaftafellssýslu Stefnumótun lokið Hornafirði - Árið 1996 fór sýslunefnd A-Skaftafellssýslu þess á leit við samgöngu- og ferðamálanefnd A-Skaft að gerð yrði stefnumótun í ferðaþjónustu fyrir svæðið. Nú tæpum 2 árum síðar er verkefninu lokið og gefur það nokkuð góða sýn fyrir ferðaþjónustuna að byggja á hér í sýslunni.

Þær Bjarnheiður Hallsdóttir og Sigríður Þrúður Stefánsdóttir frá fyrirtækinu "Á sextán skóm" voru ráðnar til verksins og skiluðu þær góðri vinnu að framkvæmdaáætlun til stefnumótunar í ferðaþjónustunni frá 1998­2005. Brýnasta verkefnið er að sett verði á fót markaðsráð Austur-Skaftafellssýslu og þarf ráðið að hefja störf strax í ársbyrjun 1998.

Nú er ferðaþjónustan í sýslunni þriðji stærsti atvinnuvegurinn hér og er stefnt að því að gera hann að öðrum stærsta. Mikil vinna er framundan hjá markaðsráði sem er m.a. að setja á fót upplýsingamiðstöð sem rekin er allt árið og að efla upplýsingamiðstöðina í Skaftafelli. Einnig þarf að kanna þarfir ferðamannsins, hvað hér vantar á svæðið og að efla það sem fyrir er. Einnig kom fram í skýrslunni að mikil uppbygging hefði orðið á gistirými og ættu ferðaþjónustuaðilar nú að fara að huga meira að auknu framboði á fjölbreyttri afþreyingu.

Mörg fleiri verkefni komu fram sem þarf að vera lokið fyrir vorið 1998 og einnig langtímaverkefni svo sem á sviði umhverfismála.