LÍFIÐ á eyjunni Bougainville í Papua Nýju Guineu virðist nú vera að færast í eðlilegt horf eftir níu ára borgarastyrjöld. "Við erum full vonar," segir James Hasunn, frá Buka eyju norður af Bougainville. "Það er langt síðan okkur hefur liðið svona. Fólk hafði enga trúa á því að friður gæti komist á en vegna nærveru friðargæslusveitanna höfum við nú fengið nýja von."
Bougainville í Nýju Guineu

"Höfum loks

von um frið"

Kieta. Reuters

LÍFIÐ á eyjunni Bougainville í Papua Nýju Guineu virðist nú vera að færast í eðlilegt horf eftir níu ára borgarastyrjöld. "Við erum full vonar," segir James Hasunn, frá Buka eyju norður af Bougainville. "Það er langt síðan okkur hefur liðið svona. Fólk hafði enga trúa á því að friður gæti komist á en vegna nærveru friðargæslusveitanna höfum við nú fengið nýja von."

Harðast hafa átökin, milli fylgismanna uppreisnarhers Bougainville og stjórnarhers Papua Nýju Guineu, komið niður á miðhluta Bougainville. Í bæjunum Kieta og Arawa, sem var áður einn íburðarmesti bær í Vestur-Kyrrahafi, hefur verið kveikt í flestöllum verslunum og íbúðarhúsum auk þess sem öllu steini léttara hefur verið stolið. Þá hafa flestir íbúanna flúið átökin til fjalla.

Friðarsamningar voru hins vegar undirritaðir á Nýja-Sjálandi í október og í kjölfar þess hafa óvopnaðir friðargæsluliðar frá Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Fijieyjum streymt til eyjunnar.

Í fyrstu voru íbúar tortryggnir gagnvart friðargæsluliðunum enda var sá orðrómur á kreiki að þeir væru komnir til þess að ráða leiðtoga uppreisnarmanna af dögum. Eyjaskeggjar hafa hins vegar smám saman lært að treysta friðargæsluliðunum og eru nú byrjaðir að snúa aftur til heimila sinna. Samkvæmt upplýsingum ástralsks yfirmanns í friðargæslusveitunum er honum nú æ oftar heilsað með vinsamlegum köllum og breiðum brosum.

Reuters YFIRMAÐUR friðargæsluliða á eyjunni Bougainville í Papua Nýju Guineu ræðir við nokkra liðsmenn uppreisnarhers Bougainville.