Þuríður Baldursdóttir, Sigurveig Hjaltested og Guðmundur Jónsson syngja (5 fyrstu lögin) við undirleik Kristins Arnar Kristinssonar, Guðrúnar Kristinsdóttur og Ragnars Björnssonar (eldri upptökur úr safni Ríkisútvarpsins). Þórunn Guðmundsdóttir syngur önnur lög við undirleik Jóns Sigurðssonar, tekin upp í Fella- og Hólakirkju í maí 1996. Ólafur Elíasson sá um upptökur. Aðstandendur útgáfu: Anna G.

Angan bleikra blóma

TÓNLIST Hljómdiskar

STEFÁN ÁGÚST KRISTJÁNSSON

SÖNGLÖG Þuríður Baldursdóttir, Sigurveig Hjaltested og Guðmundur Jónsson syngja (5 fyrstu lögin) við undirleik Kristins Arnar Kristinssonar, Guðrúnar Kristinsdóttur og Ragnars Björnssonar (eldri upptökur úr safni Ríkisútvarpsins). Þórunn Guðmundsdóttir syngur önnur lög við undirleik Jóns Sigurðssonar, tekin upp í Fella- og Hólakirkju í maí 1996. Ólafur Elíasson sá um upptökur. Aðstandendur útgáfu: Anna G. Stefánsdóttir, Friðrik D. Stefánsson og Ólafur F. Magnússon. Dreifing: Tónverkamiðstöðin og Ólafur F. Magnússon.

ÞESSI hljómdiskur með sönglögum eftir Stefán Ágúst Kristjánsson er gefinn út í minningu tónskáldsins sem fæddur var fyrir réttri öld, en lést fyrir níu árum. Stefáni Ágústi var margt vel gefið, m.a. orti hann ljóð og var söngmaður góður, svo sem hann átti kyn til. Hann bjó og starfaði lengst af á Akureyri, þar sem hann lét m.a. félagsmál mjög til sín taka og gegndi yfirleitt forystuhlutverki. Einnig var hann einn af stofnendum Karlakórsins Geysis, svo eitthvað sé nefnt. Árið 1970 fluttist hann til Reykjavíkur og bjó þar til æviloka.

Hljómdiskurinn inniheldur níu sönglög, fimm þeirra (þau fyrstu á diskinum) eru úr safni Ríkisútvarpsins. Þetta eru falleg lög og vel flutt (söngur og píanóleikur) ­ sum mjög vel, og það er ánægjulegt að rifja upp gullfallegan söng Sigurveigar Hjaltested (sérstaklega í Angan bleikra blóma). Því miður er afgangurinn ekki eins góður, hvorki söngur né undirleikur, sem horttveggja er fremur litlaust, þó allt sé gert af kunnáttu og ótvíræðri samviskusemi. Lögin þurfa flutning sem gefur þeim líf og fyllingu.

Söngskráin er í styttri kantinum (u.þ.b. 37 mín.), og fjögur lögin endurtekin með öðrum söngvara. Aftur á móti er ljóst að með þessu framtaki hefur lögum (sumum?) Stefáns Ágústs Kristjánssonar verið forðað frá gleymsku, og er það vissulega þakkarvert, því hann var góður lagasmiður, sem unni tónlistinni, heimabyggðinni ­ og guðsgrænni náttúrunni (þótt hún sé stundum "misturblá". . .).

Oddur Björnsson