JAFNRÆÐI VIÐ STYRKVEITINGAR AMKEPPNISRÁÐ hefur beint því til menntamálaráðuneytisins, að þeir, sem geri tillögur um styrkveitingar, séu óhlutdrægir.
JAFNRÆÐI VIÐ
STYRKVEITINGARAMKEPPNISRÁÐ hefur beint því til menntamálaráðu neytisins, að þeir, sem geri tillögur um styrkveitingar, séu óhlutdrægir. Þetta er niðurstaða ráðsins vegna kvörtunar Brynju Benediktsdóttur, leikstjóra, vegna setu fulltrúa atvinnuleikhúsa í framkvæmdastjórn Leiklistarráðs Íslands, sem fjallað hefur um úthlutun á styrkjum þess. Ný framkvæmdastjórn var kosin 6. desember, en í síðustu stjórn áttu sæti þrír fulltrúar, þar af tveir fastráðnir starfsmenn Þjóðleikhússins. Samkeppnisráð telur, að Þjóðleikhúsið starfi á samkeppnismarkaði og því sé ekki eðlilegt, að starfsmenn þess taki ákvarðanir um þessar styrkveitingar. Í áliti Samkeppnisráðs segir m.a. um fulltrúa í framkvæmdastjórninni:
"Til þess að taka af allan vafa um óhlutdrægni þeirra skulu þeir ekki vera starfandi hjá samkeppnisaðilum sjálfstæðu atvinnuleikhúsanna eða hafa einhverra hagsmuna að gæta gagnvart þeim sem um styrkina sækja." Þessi niðurstaða Samkeppnisráðs er eðlileg og tekur Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, undir það.
Í viðtali við Morgunblaðið sagði hann sjálfgert að bregðast við tilmælum Samkeppnisráðs um að hlutlausir aðilar sitji í framkvæmdastjórn leiklistarráðs. Samkvæmt stjórnsýslulögum sé það sjálfgefið, að menn séu vanhæfir að fjalla um mál sem tengist þeim eða þeim stofnunum sem þeir starfi við.
Í nýrri framkvæmdastjórn sitja nú engir er hafa þau tengsl við Þjóðleikhúsið, sem Samkeppnisráð hefur fjallað um, að mati menntamálaráðherra. Hins vegar verður ekki betur séð en álit Samkeppnisráðs hafi víðtækari þýðingu. Hið sama hlýtur að eiga við um alla þætti menningarlífsins, hvort sem um er að ræða leikhús, kvikmyndagerð eða aðra menningarstarfsemi. Þess vegna má ætla að í kjölfar álits Samkeppnisráðs verði gerð könnun á því, hvort tilefni sé til breytinga á öðrum sviðum ekki síður en á vettvangi leikhúsanna.
AÐGERÐ SEÐLABANKANS EÐLABANKINN efndi í upphafi vikunnar til skyndi uppboðs á svokölluðum endurhverfum verðbréfakaup um, sem fara þannig fram, að bankinn býðst til að kaupa ríkisbréf af bönkum og verðbréfafyrirtækjum. Upphæðin nam 5,2 milljörðum króna og verður endurkræf að mánuði liðnum, þ.e. 15. janúar 1998. Þetta er gert til þess að leysa tímabundinn vanda útlánastofnana, sem höfðu of lítið lausafé. Hætta á þenslu var því fyrir hendi og þar með hækkun vaxta.
Þetta er nýjung í aðgerðum Seðlabankans. Íslenzkur fjármálamarkaður var tiltölulega frumstæður miðað við það sem gerist erlendis, en síðustu árin hefur hann verið í örri þróun. Síðustu aðgerðir Seðlabankans eru merki um það.
Aðgerð Seðlabankans hafði í för með sér lækkun á markaðsávöxtun húsbréfa, verðtryggðra langtímabréfa og óverðtryggðra bréfa. Metviðskipti urðu á Verðbréfaþingi. Jákvæð viðbrögð markaðarins sýna, að aðgerðin var rétt og fagnaðarefni er, hve hún var árangursrík.
SKIPULAGSMÁL HÖFUÐBORGARSVÆÐIS
AGNRÝNI sérfræðings, sem samið hefur áfangaskýrslu um stefnumótun fyrir miðborgina á vegum brezks ráð gjafarfyrirtækis, er athyglisverð. Það er niðurstaða hans að vinna þurfi að skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins í heild en ekki í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Stór-Reykjavíkursvæðið er einn byggðarkjarni, þótt um sé að ræða sjö sveitarfélög. Það segir sig sjálft, að í skipulagsmálum þurfa þessi sveitarfélög, Reykjavík, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur, að eiga mjög náið samstarf. Þau hljóta að taka mið hvert af annars hagsmunum með margvíslegum hætti.
Ábending hins erlenda sérfræðings er enn ein röksemd fyrir því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verði sameinuð. Morgunblaðið hefur áður lagt til að Reykjavík, Seltjarnarneshreppur, Kópavogur og Mosfellsbær sameinist í eitt sveitarfélag og Hafnarfjörður, Garðabær og Bessastaðahreppur í annað. Það er tímabært að koma hreyfingu á slíka sameiningu.