ÞAÐ dreymir engan um að verða öryrki, en fólk veikist, lendir í slysum og stendur allt í einu frammi fyrir því að öll framtíðaráform og áætlanir verða að engu. En á þessum erfiðu tímamótum þegar öll sund virðast vera lokuð má eygja ljós í myrkrinu "við búum á Íslandi, þar sem velmegunin er ein sú mesta í heiminum og samfélagið hlúir að þegnum sínum og styður þá,
Gangan langa

Þá ráðstöfun, að tengja greiðslur bóta Almannatrygginga við tekjur maka, telur Sigurbjörg Ármannsdóttir algerlega ólöglega.

ÞAÐ dreymir engan um að verða öryrki, en fólk veikist, lendir í slysum og stendur allt í einu frammi fyrir því að öll framtíðaráform og áætlanir verða að engu. En á þessum erfiðu tímamótum þegar öll sund virðast vera lokuð má eygja ljós í myrkrinu "við búum á Íslandi, þar sem velmegunin er ein sú mesta í heiminum og samfélagið hlúir að þegnum sínum og styður þá, sem lenda í alvarlegum áföllum með öflugu almannatryggingakerfi". Þetta höfum við öll heyrt ráðamenn tala um á hátíðastundum, og við þökkum Guði fyrir að búa hér, en ekki t.d. í Ameríku.

Og fólk fer af stað til þess að leita réttar síns, en það reynist vera löng og ströng ganga, og alls ekki eins og við höfðum gert okkur vonir um. Því miður eru þeir margir í þessum sporum sem eru það ungir að þeir hafa ekki áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum og þurfa því alfarið að treysta á almannatryggingakerfið sér til lífsviðurværis. Þetta er oft fólk nýkomið úr námi og er e.t.v. jafnframt að eignast þak yfir höfuðið.

Við skulum nú líta á hvað bíður ungs öryrkja, sem er í hjónabandi. Óskertar örorkubætur nema 14.541 kr. á mánuði og ef um hreyfihamlaðan einstakling er að ræða fær hann að auki um 4.700 kr. á mánuði í bensínstyrk og ef hann á börn bætast við um 12.000 kr. barnalífeyrir með hverju barni. Ef maki hans er með hærri tekjur en 74.654.00 á mánuði fær öryrkinn ekki tekjutryggingu, sem er 27.000 á mánuði né möguleika á að fá frekari uppbót vegna lyfja og lækniskostnaðar.

Sú ráðstöfun, að tengja greiðslur bóta almannatrygginga við tekjur maka, er algerlega ólögleg. Á þetta var bent í erindi til umboðsmanns Alþingis á sl. vetri og í kjölfarið rætt í utandagskrárumræðu á Alþingi. Ástæða þess er, að í 17. grein laga um almannatryggingar segir:

"Ef aðrar tekjur örorkulífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og húsaleigubætur samkvæmt lögum nr. 100/1994 fara ekki fram úr 232.064 kr. á ári skal greiða uppbót á lífeyri hans að upphæð 330.036 á ári. Hafi bótaþegi hins vegar aðrar tekjur umfram 232.064 kr. skal skerða uppbótina um 45% þeirra tekna sem umfram eru." Það er engum vafa undirorpið, að hér er átt við tekjur bótaþegans sjálfs, og hvernig skerða skuli tekjutryggingu hans fari aðrar tekjur hans yfir ákveðin mörk.

Þegar rætt er um tekjur einstaklings er átt við hann sjálfan, nema annað sé tekið fram. Þetta kemur ekki aðeins fram í lagatextum á borð við almannatryggingalögin heldur hvarvetna þar sem einstaklingar þurfa að gera grein fyrir tekjum sínum. Í þessu sambandi gildir einu hvernig yfirvöld kjósa að skattleggja tekjur hjóna, enda er það annað mál.

Fyrir nú utan það hvað þetta er óréttlátt hefur þessi ráðstöfun gríðarleg áhrif á sjálfsmat öryrkjans. Hann er að ganga í gegnum það ferli að þurfa að sætta sig við heilsubrest og sér ef til vill fram á það, að menntun sú sem hann hefur verið mörg ár að afla sér, muni ekki nýtast honum til framfærslu í framtíðinni. Hann þarf nú að ganga manna á milli og biðja um aðstoð, ekkert er sjálfgefið, allt þarf að sækja um með tilheyrandi vottorðum og pappírsfargani. Og til að kóróna niðurlæginguna, er hann nú af því opinbera settur á framfæri maka síns. Því að bæturnar til hans eru svo skammarlega lágar að þær duga oft ekki einu sinni fyrir læknis- og lyfjakostnaði.

Það ætti öllum að vera ljóst að hér er verið að níðast á þessum einstaklingi og brjóta hann niður. Og þetta bitnar ekki aðeins á honum því að fjölskylda hans líður einnig fyrir þetta. Þar að auki er öryrkinn félagslega og efnahagslega úr takti við jafnaldra sína, sem eru útivinnandi og af fullum krafti að koma sér áfram og skapa sér og sínum framtíðarheimili, og jafnvel á framabraut.

Þessi skerðing er afar athyglisverð og lítt skiljanleg þegar litið er til hjúskaparlaga, þar sem skýrt er kveðið á um sameiginlega framfærsluskyldu hjóna. Í hjúskaparlögum frá 14. apríl 1993 I kafla 2. grein segir: "Hjón eru í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum og bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum. Þeim ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlegra hagsmuna heimilisins og fjölskyldu. Hjón eiga í sameiningu að annast uppeldi barna sinna, sjá þeim farborða og hjálpast við að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimilinu og á annan hátt."

Í 3. grein laganna segir ennfremur "Hjón skulu skipta milli sín verkefnum á heimili eftir föngum, svo og útgjöldum vegna heimilisrekstrar og framfærslu fjölskyldu."

Með ákvörðun sinni um skerðingu bóta til giftra öryrkja er hið opinbera að skerða getu þessa hóps til þess að standa við sinn hluta hjúskaparlaganna. En hjónabandið og fjölskyldan eru að flestra mati hornsteinn samfélagsins, og ætla mætti að það væri í þágu samfélagsins að treysta þessa undirstöðu frekar en að grafa undan henni. Í því sambandi má nefna, að börn umvafin traustum fjölskylduböndum lenda sjaldan á villigötum.

Allt öðru máli gegnir um þá sem missa atvinnu sína þar sem atvinnuleysisbætur eru ekki háðar tekjum maka. Því opinbera finnst það greinilega vera miklu alvarlegra fyrir fólk að missa atvinnuna en heilsuna.

Að mínu viti er þetta rökleysa, þar sem annars vegar er oftast um tímabundið ástand að ræða, en hins vegar því miður um varanlegt. Sama máli gegnir um örorkulífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum, en þær eru ekki háðar tekjum maka. En eins og ég hef áður getið um eru því miður mjög margir öryrkjar, sem hafa ekki verið nægilega lengi á vinnumarkaðinum til þess að vinna sér inn lífeyrisréttindi úr lífeyrissjóðunum.

Það að mismunur skuli vera á rétti einstaklingsins í þessum samtryggingasjóðum er alveg út í hött og hlýtur að vera lögleysa, og það er alls ekki við hæfi að gera fólki svo mishátt undir höfði.

Það er augljóst að hið opinbera svífst einskis, þegar um er að ræða að skammta örorkulífeyrisþegum tekjur, þessum hópi sem kippt er burt úr eðlilegum farvegi, og neyðist til að laga sig að allt öðru lífsmunstri, en væntingar stóðu til.

Til marks um bág kjör öryrkja má nefna, að margir þeirra neyðast til þess að leita á náðir hjálparstofnana á jólum.

Við hljótum að gera þá kröfu, að bætur almannatrygginga til allra bótaþega miðist a.m.k. við lágmarkslaun í landinu og fylgi breytingum sem verða á þeim á hverjum tíma.

Höfundur er er félagi í MS félagi Íslands.

Sigurbjörg Ármannsdóttir