FYRIR Alþingi liggur lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar um eftirlit sem starfrækt er í skjóli opinbers valds og um reglusetningu sem því tengist. Forsætisráðherra mælir fyrir frumvarpinu í dag. Það nær hvorki til löggæslu né innra eftirlits hins opinbera en fjallar hins vegar um þá reglustýringu sem opinberir aðilar beita fyrirtæki og einstaklinga.
Dregið úr opinberri reglustýringu

Umbætur á regluverkum, segir Orri Hauksson , skipta afar miklu fyrir lífskjör þjóða.

FYRIR Alþingi liggur lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar um eftirlit sem starfrækt er í skjóli opinbers valds og um reglusetningu sem því tengist. Forsætisráðherra mælir fyrir frumvarpinu í dag. Það nær hvorki til löggæslu né innra eftirlits hins opinbera en fjallar hins vegar um þá reglustýringu sem opinberir aðilar beita fyrirtæki og einstaklinga. Verði frumvarpið að lögum er dregið úr heimildum hins opinbera til að stýra athöfnum þegnanna og hafa með þeim eftirlit.

Erlend reynsla nýtt

Í flestum iðnvæddum ríkjum heims hefur þróunin orðið sú undanfarna áratugi að hið opinbera hefur teygt sig lengra inn í atvinnulíf og mannlíf íbúanna en áður hefur þekkst. Starfrækt er opinbert eftirlit með sífellt fleiri þáttum og reglusetning opinberra aðila felst í æ nákvæmari fyrirmælum. Ekki er hér átt við að öll slík reglustýring sé endilega slæm, en í heild sinni mynda þessi regluverk oft ógagnsæ og þung opinber stýrikerfi. Almenningur og fyrirtæki hafa þá minna svigrúm til að skipa málum eftir eigin höfði sem getur valdið sóun, kostnaði og hægari framþróun en ella. Ekki hefur verið greint með nákvæmum hætti hvernig við Íslendingar stöndum í alþjóðlegum samanburði í þessum efnum. Nokkuð víst má þó telja að enn sem komið er séum við ekki eins langt komnir á braut reglustýringar og til að mynda Japan, Norður-Ameríka og mörg Evrópulönd. Með EES- samningnum höfum við hins vegar þurft að taka upp fjölda opinberra fyrirmæla sem okkur þóttu áður ónauðsynleg. Eins hefur almenn þróun hins opinbera hérlendis verið með svipuðum hætti. Sem dæmi má nefna að réttarstaða manna er hér orðin óljós af völdum regluverksins; til eru aðstæður þar sem ekki er hægt að uppfylla eina reglugerð án þess að brjóta aðra. Víst er að virðing manna fyrir lögum og reglum eykst ekki við slík tilvik. Nú er því nauðsynlegt að endurhugsa eftirlitskvaðir og regluverk hins opinbera til hagræðis fyrir almenning og atvinnulíf.

Himinhár kostnaður

Þótt göfug markmið kunni að liggja að baki mörgum reglugerðum, eru slík opinber afskipti oft afar íþyngjandi. Samskipti atvinnulífsins við opinberar eftirlitsstofnanir geta verið tafsöm og útheimt dýra sérfræðiráðgjöf. Eins geta eftirlitsgjöld verið í litlu samræmi við eðlilegan kostnað við eftirlitið og kæruleiðir eru oft óljósar. Hið óbeina óhagræði samfélagsins af reglustýringu er þó margfalt meira. Í Bandaríkjunum er til að mynda talið að óbeinn kostnaður atvinnulífsins af regluverkinu þar nemi allt að 47% af útgjöldum ríkisins. Umbætur í reglusetningu og reglustýringu skipta því afar miklu fyrir lífskjör þjóða. Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gerir ráð fyrir að hjá þeim þjóðum sem búa við umfangsmikil reglukerfi muni verg landsframleiðsla aukast um 3 til 6% þegar umbótum í reglusetningu og reglustýringu hefur verið hrint í framkvæmd af metnaði. Hérlendis er ekki hægt að vænta jafn mikils vaxtar í kjölfar umbóta af þessu tagi, enda reglubyrði fyrirtækja og einstaklinga hér talin talsvert minni en víða annars staðar, sem fyrr greinir.

Víðtæk samstaða

Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir meðal annars: "Dregið verði úr skrifræði í samskiptum borgaranna við stjórnvöld og óþarfa laga- og reglugerðarákvæði verða afnumin." og "Tryggt verður að eftirlitsaðilar íþyngi fyrirtækjum ekki um of með starfsemi sinni." Því frumvarpi sem hér er rætt um er ætlað að vinna að þessum markmiðum. Það er hins vegar ekki eingöngu ríkisvaldið eða núverandi ríkisstjórn sem fýsir að gera slíkar umbætur. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var frumvarp þetta fyrst unnið. Að auki hefur fjöldi aðila í þjóðfélaginu, sér í lagi úr atvinnulífinu, hvatt til þess að komið verði böndum á opinberar eftirlitskvaðir. Þá skuldbundu ríki OECD sig í maí 1997 til að vinna að umbótum í reglustýringu í löndum sínum og ber okkur Íslendingum að verða við því.

Nýtt verklag

Frumvarpið kveður á um að ný íþyngjandi reglusetning skuli ekki samþykkt nema áður hafi farið fram greining sem gefi til kynna að ábati samfélagsins af breytingunni sé meiri en óhagræðið. Þá skulu eftirlitsreglur hafa takmarkaðan gildistíma svo sérstaklega þurfi að endurnýja þær. Reglusetning miðist við þá sem eiga að fara eftir henni, en ekki aðeins þá sem setja hana og stýra. Forsætisráðuneytið skal hafa umsjón með samræmingu í framkvæmd laganna og forsætisráðherra skipar nefnd sér til fulltingis. Meðal annars á þeim vettvangi er hægt að takmarka eftirlitsstarfsemi sem starfrækt er í skjóli hins opinbera og vinna að stöðugum umbótum á því eftirliti sem áfram er talið nauðsynlegt. Dæmi um slíkar umbætur er að gefa einkareknum skoðunarstofum í ríkari mæli tækifæri á að spreyta sig og koma á samkeppni milli faggildra aðila sé þess kostur. Þar sem slíkri ráðstöfun verður við komið má gera ráð fyrir að sjálfstæðar skoðunarstofur muni veita víðfeðmari eftirlitsþjónustu en hinar opinberu eftirlitsstofnanir geta. Fyrirtæki þurfa þá ekki að vænta heimsókna jafn margra eftirlitsaðila og nú og kostnaður vegna samskipta við þessa aðila ætti að fara lækkandi. Eins er bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu sem kveður á um að endurskoða skuli eldri reglur á næstu þremur árum.

Markvisst skref

Það má deila um hvort frumvarpið gangi nógu langt í að binda hendur opinberra aðila til reglustýringar. Ljóst er þó að frumvarpið felur í sér markvissar leiðir til lagabóta. Það byggist á þeirri meginreglu að hafna takmörkunum á athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist. Atvinnulífið má ekki fjötra umfram það sem brýn nauðsyn krefur. Efnahagslegur afrakstur þjóðarinnar er enda að miklu leyti ákvarðaður af því svigrúmi sem hið opinbera veitir.

Höfundur er aðstoðarmaður forsætisráðherra.

Orri Hauksson