FIAT SpA, stærsta fyrirtæki Ítalíu, mun líklega flýta sér að fylla skarð Giovanni Alberto Agnelli, sem ákveðið hafði verið að tæki við stöðu stjórnarformanns á næsta ári -- en lézt úr krabbameini um helgina, 33 ára að aldri.
Fiat þarf að finna nýjan forstjóra
Mílanó. Reuters.
FIAT SpA, stærsta fyrirtæki Ítalíu, mun líklega flýta sér að fylla skarð Giovanni Alberto Agnelli, sem ákveðið hafði verið að tæki við stöðu stjórnarformanns á næsta ári -- en lézt úr krabbameini um helgina, 33 ára að aldri.
Núverandi stjórnarformaður Fiats, Cesare Romiti, verður að láta af störfum þegar hann verður 75 ára á næsta ári og kemst á eftirlaun hjá fyrirtækinu.
Þótt Agnelli greindist með krabbamein fyrr á þessu ári hafa Fiat og ættin, sem hefur ráðið fyrirtækinu, helzt ekki viljað ræða val nýs forstjóra. Búizt hafði verið við því að Giovanni Alberto Agnelli mundi stjórna fyrirtækinu á 100 ára afmæli þess 1999.
Stofnandi fyrirtækisins var langalangafi Giovannis Alberto Agnelli, sem einnig hét Giovanni.
Ekki úr fjölskyldunni
Eftirmaður Romitis verður líklega ekki úr fjölskyldunni, því að enginn úr henni hefur menntun til að gegna starfinu eða áhuga á því. Yfirleitt er skortur á velmenntuðum, efnilegum og metnaðargjörnum mönnum í ítalska einkageiranum. Giovanni Agnelli, fyrrverandi stjórnarformaður Fiats, sagði í sumar að hann hefði ákveðinn mann í huga, en nefndi ekkert nafn.
Hugsanlegt er að Romiti verði boðið að gegna starfinu áfram í eitt ár, á sama hátt og Gianni Agnelli fv. stjórnarformaður var beðinn að starfa áfram til bráðabirgða fyrir nokkrum árum.
Bróðir Gianni Agnellis, Umberto Agnelli, hefur verið talinn hugsanlegur arftaki Romiti. En Umberto hefur einbeitt sér að því verkefni að breyta tveimur eignarhaldsfélögum Agnelli-fjölskyldunnar, IFI og IFIL, í virkt iðnfyrirtæki, sem lætur bankastarfsemi og fjarskipti einnig til sín taka.