Til 23. des. Opið alla daga nema þriðjudaga frá kl. 12­18. Í HAFNARBORG er sýning sem ætti að létta mönnum lund í jólaannríkinu og höfða sérstaklega til þeirra sem yngri eru. Þar getur að líta úrval af myndskreytingum Brians Pilkingtons, sem margar hverjar eru tengdar jólahátíðinni og jólasveininum.

Í ævintýraheimi

MYNDLIST

Hafnarborg

MYNDSKREYTINGAR

BRIAN PILKINGTON

Til 23. des. Opið alla daga nema þriðjudaga frá kl. 12­18.

Í HAFNARBORG er sýning sem ætti að létta mönnum lund í jólaannríkinu og höfða sérstaklega til þeirra sem yngri eru. Þar getur að líta úrval af myndskreytingum Brians Pilkingtons, sem margar hverjar eru tengdar jólahátíðinni og jólasveininum. Um þessar mundir kemur einnig út bók sem hann hefur myndskreytt við sögu eftir Guðrúnu Helgadóttur, sem heitir "Englajól". Ef menn kannast ekki við nafnið Brian Pilkington þá er næsta víst að menn hafi séð myndir eftir hann, því hann hefur myndskreytt 15 barnabækur og átt myndir í um áttatíu bókum, auk myndskreytinga á bókakápum, auglýsingum, jólakortum, veggspjöldum og eflaust fleira. Af þessu að dæma er ekki ólíklegt að hann sé einn víðkunnasti myndlistar- eða myndgerðarmaður, starfandi hér á landi í dag.

Það þarf ekki að hanga lengi fyrir framan myndir Brians til að átta sig á því að hann er mikill fagmaður á sínu sviði. Og það er rétt að leggja áherslu á að myndskreytingar, eða myndlýsingar, eru sérstakt svið myndgerðar, sem krefst sérhæfingar og þjálfunar, sem sést best af því að Brian á að baki langt nám í myndskreytingum, fyrst fimm ár hjá meistara í Liverpool og síðan þriggja ára nám til B.A. gráðu við listaskóla í Leicester.

Brian Pilkington er fæddur í Liverpool á Englandi 1950, en hann hefur búið hér á landi frá 1976. Barnabækur hafa verið aðalvettvangur hans og á sýningunni eru margar myndraðir úr barnabókum sem hann hefur myndskreytt. Það er erfitt að velja úr einhverja eina, því þær eru margar skemmtilegar, en þó fannst mér að meðferð Brians á ævintýrinu um þá Bakkabræður, Gísla, Eirík og Helga, dragi fram það besta í honum. Hann skapar ekki aðeins lifandi og skoplegar senur, heldur sést vel í þeirri seríu hversu haganlega hann hefur búið ævintýrinu umgjörð og baksvið. Brian hugar vel að öllum smáatriðum og það er hægt að liggja yfir myndunum og gaumgæfa þær (eins og búast má við að börn geri). Hann hefur greinilega gaman af því að útfæra fjölmennar hópsenur þar sem margt er að gerast í sömu andrá.

Sá sem myndskreytir sögu getur gert geysilega mikið fyrir hana með sviðsetningu og karaktersköpun, og það er greinilegt að Brian gerir sér far um að búa til lítinn myndheim og lifa sig inn í hann. Andinn í myndunum er bjartur og glaðlyndur, jafnvel tröll og forynjur eru trúðslegar. Myrkraöfl og óvættir eiga ekki greiða leið í þennan heim. Það er athyglisvert að sjá hvernig Brian hefur aðlagað erlendar fyrirmyndir íslenskum menningarheimi, eins og í mynd hans af íslensku jólasveinunum, sem eiga eitthvað skylt við dvergana í teiknimynd Disneys um Mjallhvíti.

Menn skyldu ekki vanmeta gildi góðra myndskreytinga fyrir hugarheim barna, en maður þarf ekki að vera barn til að kunna að meta myndir Brians Pilkingtons.

Gunnar J. Árnason

ÍSLENSKI jólasveinninn.