TILRAUNAVERKEFNI Hitaveitu Akureyrar, Orkustofnunar og fleiri aðila, sem felst í niðurdælingu vatns í jarðhitasvæðið á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit hefur farið mjög vel af stað, að sögn Ólafs Flóvenz, framkvæmdastjóra rannsóknarsviðs Orkustofnunar. Undanfarna rúma þrjá mánuði hefur um 20C heitu vatni verið dælt undir þrýstingi í holu á svæðinu, sem er tæplega þriggja kílómetra djúp.
Vatn hitað með dælingu í 3 km djúpa holu á Laugalandi Allar niðurstöður

mjög jákvæðar

TILRAUNAVERKEFNI Hitaveitu Akureyrar, Orkustofnunar og fleiri aðila, sem felst í niðurdælingu vatns í jarðhitasvæðið á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit hefur farið mjög vel af stað, að sögn Ólafs Flóvenz, framkvæmdastjóra rannsóknarsviðs Orkustofnunar. Undanfarna rúma þrjá mánuði hefur um 20 C heitu vatni verið dælt undir þrýstingi í holu á svæðinu, sem er tæplega þriggja kílómetra djúp.

"Verkið hefur gengið samkvæmt áætlun og allar niðurstöður eru mjög jákvæðar og í samræmi við okkar væntingar," sagði Ólafur. Á Laugalandi er nægur hiti í jörðu en vatn skortir í jarðlögum til að ná hitanum til yfirborðs. Tilgangurinn er að sýna fram á að með niðurdælingu megi auka umtalsvert orkuvinnslu og afl jarðhitasvæðisins við Laugaland á hagkvæman hátt.

Orkuvinnsla eykst

Tilraunin kemur til með að standa yfir í allt að 2 ár og í lok ársins 1999 munu endanlegar niðurstöður liggja fyrir. Gert er ráð fyrir að orkuvinnsla á Laugalandi geti aukist um allt að 25 gígawattstundir á ári við niðurdælinguna.

Um 15­20 C heitu bakrásarvatni frá dælustöð hitaveitunnar í Þórunnarstræti er dælt að Laugalandi um 12 km leið. Þar er vatninu dælt í holu undir þrýstingi og dreifist vatnið um heitt bergið og hitnar þar og er síðan dælt upp á ný 90­ 95 C heitu um vinnsluholur veitunnar, til viðbótar því vatni sem þegar er dælt upp.

"Það sem við sjáum strax er að vatnsborð hækkar í holunum í kring sem verið er að dæla úr. Þetta þýðir að hægt er að taka meira vatn úr þeim, miðað við að halda vatnsborði á sama dýpi. Við settum litarefni í vatnið sem dælt er niður og það kemur fram í vinnsluholunum í svipuðum mæli og við reiknuðum með. Samt sem áður höfum við ekki endurheimt nema mjög lítið magn af því vatni sem við sendum niður, sem þýðir að vatnið dreifist mjög vel um jörðina áður en það kemur að vinnsluholunum. Og það er einmitt það sem við viljum að gerist."

Svæðið kólnar með tímanum

Ólafur sagði stefnt að því prófa niðurdælingu í aðra holu seinni partinn í vetur og seinni part næsta sumars verði gerðar tilraunir með niðurdælingu undir mjög háum þrýstingi. "Samfara þeirri tilraun eigum við jafnvel von á að sjá örfína jarðskjálfta á mælum og þeir munu þá segja okkur hvaða sprungur eru að hreyfast og hvernig þær liggja í jörðinni."

Ólafur sagði menn bíða spennta eftir því að sjá hve fljótt færi að votta fyrir kælingu og niðurdælingin myndi með tíð og tíma valda kælingu á svæðinu. "Það hefur ekki gerst enn og við eigum ekki von á að sjá það gerast fyrstu árin ef allt fer á besta veg."

Hitaveita Akureyrar, Orkustofnun og samstarfsaðilar, Háskólinn í Uppsölum í Svíþjóð, Rarik og danski efnaframleiðandinn Hoechst Danmark a/s, sóttu um styrk úr rannsóknar- og þróunarsjóði Evrópusambandsins til verkefnisins. Þar var tekið jákvætt í málið og fékkst styrkur upp á 54 milljónir króna og er þetta með hæstu styrkjum sem Evrópusambandið hefur veitt til íslenskra rannsóknar- og þróunarverkefna.