Líf og fjör á símamarkaði í Evrópu
Framfarir í hugbúnaðargerð bjóða upp á næstum
endalausa möguleika á nýrri þjónustu
SÍMINN hans Sverre Middelthon er mörgum góðum kostum búinn. Hann getur sýnt nafn þess, sem hringir, hann getur komið í veg fyrir, að í hann sé hringt úr ákveðnum númerum og símsvarinn flokkar og hefur góða reiðu á skilaboðunum. Sverre getur líka tengt einkanúmerið sitt við hvaða síma sem er, hvort sem það er í annarri íbúð, í sumarbústaðnum, vinnunni, á hótelherbergi eða við farsímann. "Ég er á fljúgandi ferð um alla Evrópu og síminn er mér allt," segir Sverre en hann er tæknistjóri á einu norsku dagblaðanna.
Allur þessi aukabúnaður kostar að sjálfsögðu sitt og á því hagnast Telenor í Noregi og önnur evrópsk símafyrirtæki. Virðast margir vera tilbúnir til að borga mikið fyrir búnað af þessu tagi og markaðsrannsóknafyrirtækið Schema í London áætlar, að markaðurinn fyrir hann verði meiri en 107 milljarðar ísl. kr. árlega eftir 2002.
Símafyrirtækin telja einnig, að með nýja búnaðinum geti þau treyst betur böndin milli sín og viðskiptavinanna og ekki mun af því veita þegar fullt frelsi verður komið á í evrópskum fjarskiptamálum. Er nú þegar orðin hörð samkeppni milli ríkissímafyrirtækja og einkafyrirtækja á þessum markaði enda er því spáð, að í framtíðinni muni baráttan um viðskiptin snúast um þjónustu af þessum toga en ekki um verðið, sem muni jafnast út smám saman.
Símar hlýða munnlegum fyrirskipunum
Allt hefur þetta hleypt nýju lífi í evrópska símamarkaðinn en áratugum saman hefur fólk þakkað fyrir það eitt að vera í sambandi og þurfa ekki að greiða háa símareikninga. Með nýju símunum verður alger bylting. Hægt er að láta þá bera kennsl á rödd þess, sem hringir; útiloka óæskilegar upphringingar og jafnvel að elta fólk uppi. Farsímarnir með sínum innbyggða staðsetningarbúnaði eru jafnvel enn fjölhæfari.
Middelthon hinn norski getur ráðið því hvaða sími tekur við númerinu hans og það gerir hann með því að hringja í grænt númer og stimpla inn lykilnúmer fyrir réttan síma. Getur hann líka beint hringingunni áfram í annan síma ef hann skyldi ekki vera við í þeim fyrri og að síðustu í símsvarann. Þetta kostar dálitla fyrirhöfn en hún verður brátt úr sögunni. Sænska fjarskiptafyrirtækið L.M. Ericsson er nú að þróa búnað, sem tekur við beinum fyrirskipunum. Viðkomandi tekur þá upp símann og segir "láttu hringja heima" og þá hringir næst heima eða "hringdu í yfirmann minn" og þá hringir þar á samri stundu.
Ævintýralegur hagnaður fyrirtækjanna
Það eru fyrst og fremst framfarir í hugbúnaðargerð, sem gera þetta kleift. Áður tók það að minnsta þrjú ár að koma einhverri nýjung, nýrri þjónustu, í gagnið en nú innan við eitt ár. Þegar hugbúnaðurinn er farinn að vinna sitt verk, þá kostar það næstum ekkert að bæta við nýjum viðskiptavini og hagnaður fyrirtækjanna getur verið ævintýralegur.
Mörg símafyrirtæki á Írlandi og á Norðurlöndum eru að taka upp símakort, sem hægt er að nota hvar sem er og raunar þarf notandinn ekkert á því að halda nema til að átta sig á lykilnúmerinu, sem er stimplað inn áður en hringt er.
"Næstum endalausir möguleikar hinnar nýju tækni"
Möguleikarnir, sem hin nýja tækni býður upp á, eru næstum endalausir og sem dæmi má nefna svokallaða "kostun", sem brátt mun líta dagsins ljós. Þá er til dæmis einhver farsímaeigandinn á rölti eftir götu þegar síminn fer skyndilega að auglýsa þurrhreinsun hinum megin við götuna. Líti maðurinn inn í þurrhreinsunina þá er boðist til að greiða lítinn hluta af næsta símtali hans. Eru þær upplýsingar skráðar inn í símann í gegnum gervihnött.
(Heimild: The Wall Street Journal)