Ástarskot
BÆKUR
Þýdd barna- og unglingabók
EVA OG ADAM
AÐ VERA EÐA VERA EKKI
- SAMAN
eftir Mäns Gahrton, myndskreytingar Hohan Unenge. Þýðandi Karl Helgason. Æskan, 1997 121 bls.
EVA og Adam eru saman í bekk en það er í gítartímum sem þau kynnast betur og verða skotin hvort í öðru. Það er vissulega góð tilfinning að vera skotinn en hún gerir mann líka taugaóstyrkan. Allt verður svo erfitt, til að byrja með. Vinirnir með sínar augngotur og glósur gera hlutina ekki auðveldari. En það sem er erfiðast er að fá að vera í friði. Eva og Adam eru sjaldan ein heima. Eva á tvo bræður sem eru sítruflandi. Adam á hins vegar áhugasama móður sem dregur fram myndaalbúm þegar Eva kemur í heimsókn. Eftir nokkrar samverustundir verður allt auðveldara. Þau verða öruggari og þegar þau eru saman þurfa þau ekki að gera neitt merkilegt, það er samt gaman. Allt þar til Eva hættir í gítarnáminu og snýr sér að leiklist. Nú eiga þau ekkert sameiginlegt áhugamál og Eva er svo upptekin af leikritinu að hún talar varla um annað en það sem gerist á æfingum. Þá er erfitt að lifa. Afbrýðisemin brýst fram og þau rífast. Þau rífast svo mikið að það setur sambandið í hættu því hvorugt vill bakka.
Persónurnar takast á við dagleg mál, vinina, áhugamálin og fjölskylduna. Auðvitað koma upp vandamál en þá er bara að leysa þau. Þegar Eva og Adam rífast hugsar Eva hvernig hún hafi leyst málin þegar hún var lítil og hvort það sama gildi nú þegar Adam á í hlut. Eva er heldur ekki tilbúin til að viðurkenna að hún þurfi á athygli að halda og geti verið afbrýðisöm, nei hún er þroskaðri en það.
Sagan er hlý og skemmtileg. Persónurnar eru líklega 13 ára og er þetta þeirra fyrsta ástarskot. Þess vegna vita þau ekki alveg hvernig á að haga sér. Hún hentar lesendum frá tíu, ellefu ára aldri. Letrið er stórt og skemmtilegar myndir prýða bókina.
Kristín Ólafs