Í skugga stríðsins
BÆKUR
Þýdd skáldsaga
FELLUR MJÖLL Í SEDRUSSKÓGI
eftir David Guterson. Þýðandi Árni
Óskarsson. Mál og menning, 1997 374 bls.
BÁTUR finnst á reki og sjómaðurinn reynist vera fastur í netinu. San Piedro byggja um fimm þúsund manns, mest bændur og sjómenn og óútskýrðir atburðir á borð við þennan eru sjaldgæfir. Það er áratugur liðinn frá stríðslokum en það er grunnt á sárin. Íbúarnir eru innflytjendur af ólíku þjóðerni en unga kynslóðin innfæddir Bandaríkjamenn. Samt er langt í land með að allt verði eins og fyrir stríð.
Þá vann fólk baki brotnu til að eiga í sig og á en tími var fyrir krakkana að leika sér saman. Miyomoto fjölskyldan vann við jarðaberjarækt hjá Heine fjölskyldunni og keypti svo af henni landskika á afborgunum. Þótt eyjan sé lítil er hún partur af heiminum og það er stríð. Japanir gera árás á Perluhöfn og daglegt líf kemst í uppnám. Strax byrja ofsóknir í garð íbúa frá Japan og að lokum eru þeir allir fluttir frá eyjunni og í búðir, í raun í fangabúðir. Fjölskyldum er jafnvel stíað í sundur.
Ungir karlar fara í herinn og eftir stríðið snúa þeir einn af öðrum til San Piedro. Japanskættaðir karlar voru sendir til Evrópu en þeir sem voru ættaðir þaðan börðust við Japani. Allir hafa lent í stríðsátökum og allir bera skaða af, mis sýnilegan en innilokaðan. Vináttutengsl hafa rofnað. En baráttan fyrir brauðinu er enn hörð og jafnvel enn harðari en áður þar sem eigur japanskættaðra borgara hafa rýrnað á einn eða annan hátt í stríðinu. Þeir þurfa því margir hverjir að byrja á núlli. Þegar líkið af Carl Heine finnst berast böndin fljótt að Kabuo Miyomoto. Fortíðin og fordómarnir blossa upp. Þeir eru á báða bóga.
Réttarhöld eru haldin og saga San Piedro er sögð um leið. Sagan er margbrotin og flakkar frá einu sjónarhorni til annars. Allir hafa misst eitthvað en draumsýnin rekur menn áfram, um lífið eins og það var eða hefði getað orðið, ef ekki hefði verið stríð. Vangaveltur um örlög og tilviljanir, skynsemi og tilfinningar, um sanngirni og samskipti eru fyrirferðamiklar. Sumir ná tökum á lífinu þrátt fyrir missi. Aðrir ekki. Ástir fólks af ólíkum uppruna eiga undir högg að sækja við þessar kringumstæður. Uppruninn hverfur ekki við bandarískan ríkisborgararétt og árekstrar því óumflýjanlegir.
Vel tekst að flétta saman sögu samfélagsins, veðráttu og náttúru. Réttarhöldin eru dramatísk en auðskilin. Spilað er á tilfinningar og fordóma lesenda um leið og kviðdómenda. Lesandinn fær þó að vita meira en kviðdómendur. Framtíð staðarins er í höndum kviðdómenda, allt þar til eyjarskeggjar taka við sér.
Kristín Ólafs