Leikstjóri: Andy Wilson. Handrit: Mark Haskell Smith. Kvikmyndataka: Anthony B. Richmond. Aðalhlutverk: David Duchovny, Timothy Hutton, og Angelina Jolie. 94 mín. Bandarísk. Beacon Communications. 1997.
Fallinn engill KVIKMYNDIR Laugarásbíó "PLAYING GOD" Leikstjóri: Andy Wilson. Handrit: Mark Haskell Smith. Kvikmyndataka: Anthony B. Richmond. Aðalhlutverk: David Duchovny, Timothy Hutton, og Angelina Jolie. 94 mín. Bandarísk. Beacon Communications. 1997. Ef sjónvarpsáhorfendur eru ekki búnir að fá nóg af því að hlusta á þvaðrið í Mulder í Ráðgátuþáttunum, sem gerast æ útþynntari, geta þeir skropið á "Playing God" og fylgst með muldrinu í ráðvillta lækninum Eugene Sands (David Duchovny). Annars ætti maður ekki að vera að agnúast út í Duchovny þó að Ráðgátur séu á niðurleið, svona syrpur geta ekki haldið dampi endalaust. Ég vil frekar leiðrétta auglýsingabrellur eins og fullyrðinguna að "Playing God" sé fyrsta kvikmynd sjónvarpsleikarans Duchovny. Það er einfaldlega ekki rétt, maðurinn hefur að minnsta kosti leikið í einum ellefu kvikmyndum, reyndar oftast aukahlutverk, en einnig stærri hlutverk. Það rétta í málinu er að "Playing God" er fyrsta kvikmyndin sem Duchovny ber hitann og þungann af. Hann er stjarnan í aðalhlutverkinu. Ef auglýsa á "Playing God" sem fyrstu kvikmynd einhvers þá ætti að benda á leikstjórann Andy Wilson. Hann hefur starfað sem kvikmyndatökumaður og stjórnað sjónvarpsþáttum, eins og "Cracker", en eftir því sem ég veit best best hefur hann ekki leikstýrt kvikmynd áður í Bandaríkjunum. En snúum okkur að myndinni. "Playing God" er stílfærð spennumynd um réttindalausa lækninn Eugene sem lendir inn í skuggaheimi krimmans Raymonds Blossoms (Timothy Hutton) þegar hann bjargar lífi eins af undirmönnum hans eftir skotárás. Eugene er dóphaus sem missti leyfið eftir að sjúklingur dó á skurðarborðinu hjá honum. Líf hans hefur alltaf snúist um að vera læknir svo að þegar Raymond býður honum að vera eins konar hirðlæknir hjá sér fellur hann fyrir freistingunni. Grunnhugmynd "Playing God" hefur líklega hljómað vel þegar henni var varpað fram í upphafi. Ekki bara einn ein spennumyndin um dóp, glæpi, og morð í Los Angeles heldur spennumynd með vangaveltum um þungavigtarspurningar í siðfræði. Því miður hefur unnist frekar illa úr hugmyndinni. Allt í myndinni rokkar upp og niður. Leikararnir hafa nánast engar persónur til að túlka heldur eingöngu ágætis gervi. Samt tekst Duchovny, Hutton og Angelinu Jolie (pabbi hennar er John Voigt), í hlutverki ástkonu Raymonds, að glæða hlutverkin töluverðu lífi og vekja áhuga manns. Duchovny þarf því ekki að örvænta þó að myndin sé ekkert snilldarverk, hann fær örugglega önnur tækifæri. Það þarf varla að minnast á söguþráðinn, hann er þessi hefðbundni sem allir bíógestir þekkja. Þið vitið, læknirinn fyllist efasemdum um ágæti gerða sinna og reynir að hætta dópneyslunni. Það gneistar á milli hans og ástkonu glæpakóngsins. FBI blandar sér í málið og allt endar í uppgjöri sem innifelur skotbardaga og bílaeltingarleik. Ekkert nýtt þar. Frumleikinn á víst að felast í frekar lummulegum stílfærslum og ýktum áherslum. Það sama á við hér og um grunnhugmynd sögunnar. Allt hefur örugglega litið vel út á hugmyndastiginu en framkvæmdin nær ekki að uppfylla drauminn. Anna Sveinbjarnardóttir