Jólatónleikar
Ólafi Jens Sigurðssyni:
ÞAÐ var mikil tónlistarhátíð sem
fram fór í Klifi í Ólafsvík sl. sunnudag kl. 16.00, þegar Lúðrasveitin Snær hélt þar jólatónleika, ásamt kirkjukórum bæjarins og bjöllusveit Tónlistarskólans á Hellissandi. Ian Wilkinsson tónlistarkennar kom hingað til starfa við Tónlistarskólann í Ólafsvík fyrir röskum tveimur árum. Á þessum tíma hefur honum tekist af smitandi dugnaði og áhuga, að virkja nemendur og foreldra þeirra, sem myndað hafa félag í kringum þessa starfsemi til að styðja við hana, og koma á laggirnar ótrúlega góðri lúðrasveit sem skipuð er yfir 40 ungum tónlistarmönnum. Ekki er það síst uppörvandi hvað lúðrasveitin hefur náð góðum árangri á skömmum tíma. Nú orðið má fá hana til að leika við margvísleg tækifæri sem upp koma í bænum. Ekki þarf að spyrja að því að þau taka sig alltaf vel út í fallegu búningunum sínum. Eru alltaf jafn lífleg og glöð eins og stjórnandinn sjálfur. Hljómsveitin lofar vissulega góðu. Ian Wilkinsson á mikinn heiður skilið fyrir þennan mikla áhuga og bjartsýni og ekki síður foreldrarnir sem staðið hafa öflugir að baki. Á tónleikunum var Foreldra- og styrktarfélagið með kaffisölu til styrktar hljómsveitinni. Fréttaritara varð starsýnt á hversu margt tónlistarfólk kom fram við þetta tækifæri og taldi það vera a.m.k. hálft annað hundrað. Ungir og aldnir lögðust á eitt, úr öllu hlutum þessa nýja sveitarfélags, Snæfellsbæjar. Gæti þetta verið vísbending um hvernig sameina má gamla og fastheldna hreppa í eina félagslega heild? Að þessu véku þau raunar bæði í ræðum sínum, Guðjón Petersen bæjarstjóri og Svanfríður Guðmundsdóttir kennari sem hafði orð fyrir Foreldra- og styrktarfélagi Lúðrasveiðarinnar Snæs.
Dagskráin var skemmtilega samsett, Lúðrasveitin Snær lék allmörg lög, síðan sungu kirkjukórar Ingjaldshóls- og Ólafsvíkurkirkna og kórfólk úr Staðarsveit og Breiðuvík. Stjórnendur kóranna voru þau Kay Wiggs Lúðvíksson, Kjartan Eggertsson og Ian Wilkinsson. Þá sungu kórarnir allir saman með lúðrasveitinni og tókst það sérlega vel.
Bjöllusveit Tónlistarskólans á Hellissandi lék á milli atriða undir stjórn Kay Wiggs Lúðvíksson með miklum ágætum og er sama um það starf að segja, að það er lofsvert hvað Kay Wiggs hefur tekist að byggja upp þessa bjöllusveit barna á Hellissandi á skömmum tíma.
Tónleikar lúðrasveitarinnar voru vel sóttir og var uppörvandi að sjá hvað fólk sýndi þeim mikinn áhuga.
ÓLAFUR JENS SIGURÐSSON,
Laufási 2, Hellissandi.