Kaupmenn mót-
mæla banni
KJÖTKAUPMENN í Bretlandi
héldu í gær áfram mótmælum gegn banni stjórnarinnar við sölu nautakjöts á beini sem tók gildi í fyrradag. Jack Cunningham landbúnaðarráðherra ákvað að setja bannið eftir að vísindamenn skýrðu frá því að örlítil hætta væri á því að kúariða gæti borizt í menn við neyzlu kjöts á beini.
Margir slátrarar sögðust myndu virða bannið að vettugi og bjóða brezkum almenningi hvers konar nautasteikur til kaups.
Franz Fischler, sem fer með landbúnaðarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB), sagði að hann myndi láta rannsaka hvort brezk stjórnvöld hefðu brotið lög ESB með því að banna einnig innflutning nautakjöts sem ekki samræmdist brezkum heilbrigðisreglum. Fernand Boden, landbúnaðarráðherra Lúxemborgar, sem hafði stjórnað tveggja daga löngum viðræðum landbúnaðarráðherra ESB- landanna 15, sagði að ESB-ríkin verði að taka sameiginlega á kúariðuvandanum.
"Við megum ekki grípa til aðgerða hver í sínu horni," sagði Boden og svaraði með því beinlínis yfirlýsingum Cunninghams frá því á mánudag um að ríkisstjórn hans bannaði innflutning nautakjöts frá öllum þeim löndum sem ekki hefðu gripið til sömu aðgerða gegn kúariðuhættunni og gert hefði verið í Bretlandi.
Gerd Sonnleitner, forseti þýzku bændasamtakanna, gagnrýndi harkalega í gær aðgerðir Bretlandsstjórnar. "Englendingar ættu fyrst að leysa þeirra eigin kúariðuvanda áður en þeir reyna að draga aðra með sér niður í svaðið," sagði hann í útvarpsviðtali.
Hague sýnir samtöðu
William Hague, leiðtogi Íhaldsflokksins, reitti ríkisstjórnina til reiði með því að heimsækja kjötmarkað í London sama daginn og bannið tók gildi til þess að sýna brezkum slátrurum stuðning. Hague sagði brezkan kjötiðnað horfa fram á "dauf jól" vegna þess hvaða stefnu kúariðumálið hefði nú tekið eftir nýjustu aðgerðir stjórnarinnar.
Reuters WILLIAM Hague, leiðtogi Íhaldsflokksins (t.h.), fór á kjötmarkað í London til að lýsa yfir stuðningi við brezka slátrara og þiggur hér nautakjöt af einum þeirra.