eftir Guðmund Rafn Geirdal. 152 bls. Útg. Nuddskóli Guðmundar. Prentun: Oddi. Reykjavík, 1997. HEF ÉG ekki leikið hlutverk mitt vel? spurði Ágústus keisari á banabeði. Ætli megi ekki segja að hann hafi talað fyrir munn flestra stjórnmálamanna fyrr og síðar.

Framboðsmál

BÆKUR

Hugleiðingar FRAMTÍÐIN ER OKKAR! eftir Guðmund Rafn Geirdal. 152 bls. Útg. Nuddskóli Guðmundar. Prentun: Oddi. Reykjavík, 1997. HEF ÉG ekki leikið hlutverk mitt vel? spurði Ágústus keisari á banabeði. Ætli megi ekki segja að hann hafi talað fyrir munn flestra stjórnmálamanna fyrr og síðar. Ætli stjórnmálin séu ekki mestanpart leiklist ­ þegar öllu er á botninn hvolft? Guðmundur Rafn Geirdal bauð sig fram til forseta en dró framboð sitt til baka. Bók hans, Framtíðin er okkar! fjallar að verulegu leyti um framboðsmálin. Ef rétt er skilið ætlar Guðmundur Rafn að reyna aftur þótt síðar verði. Hann telur sig eiga brýnt erindi á valdastólinn. Hann vill að stjórnmálin verði sannari og betri, byggist á kærleika og góðvild. Augljóslega telur hann að þvílíkar hugsjónir muni eiga brautargengi að fagna með þjóðinni. En fylgir hann fordæmi Ágústusar keisara? Er hann undir það búinn að leika hlutverkið til enda? Er hann ekki einum of opinskár, einlægur, allur þar sem hann er séður? Sagan sýnir að þjóðirnar dreymir jafnan um sterka leiðtoga, mikilmenni. Um innræti er síður spurt. Hlutverk mitt var óendanlega miklu stærra en ég sjálfur, sagði de Gaulle þegar hann endurheimti París undir stríðslokin. Leiðtogar verða ekki til af sjálfu sér, mikilmenni enn síður. Stjórnmálin eru list hins dulda og óræða. Stjórnmálamaðurinn verður sífellt að vera undir það búinn a tala eins og véfrétt, svara út í hött ­ ef hann á annað borð gerir sér það ómak að svara spurningum! Allra síst má hann opna hug sinn, veita öðrum hlutdeild í tilfinningum sínum. Komist hann til æðstu valda verður hann að leika hlutverk sem er stærra en hann sjálfur, jafnvel þótt hann geti ekki mælt sig við mikilmennið de Gaulle; það getur ekki hver sem er. Hversu góður og gegn sem hann annars er verður hann að látast vera ennþá meiri og ennþá gáfaðri en hann í raun og veru er. Fólk les með áfergju hvert orð sem stjórnmálamaður segir um einkalíf sitt í glanstímaritum og trúir hverju orði sem fram gengur af munni hans. Spurningin, sem brennur því á vörum, er auðvitað þessi: Getur hugsast að hann sé bara venjulegur maður? Guðmundur Rafn Geirdal byrjar sennilega á öfugum enda. Hann gengur beint að hlutunum í stað þess að fara í kringum þá. Kærleikur og velvild eru brúkleg orð í daglega lífinu og nauðsynleg þegar maður er kominn til valda og þarf að dylja óvinsælar ráðstafanir en duga skammt þegar réttur og sléttur valdalaus frambjóðandi á í hlut. Hvaða leiðtogaefni mundi vilja láta kalla sig góðmenni? En Guðmundi Rafni er alvara. Þess vegna lýsir hann í þaula sjálfum sér og skoðunum sínum. Hann telur sig hvorki til hægri né vinstri. Í háskóla segist hann hafa vakið tortryggni með því að sækja fundi beggja. Að hans mati eiga menn ekki að bítast og berjast heldur koma sér saman. Guðmundur Rafn hugsar líka mikið um eilífðarmálin og tengir þau reyndar við stjórnmálin. Hann vill að menn stundi andlega rækt eins og hann orðar það. Hann er nýaldarmaður og álítur hugleiðslu munu koma að góðu gagni. Hann leggur áherslu á hófsemi á öllum sviðum. Mannlegar hvatir skuli virkja í þágu kærleikans. Þar með sé komið í veg fyrir að þær leiti útrásar með öðrum og vafasamari hætti! Til að fólk þurfi ekki velta fyrir sér hvers konar maður hann sé, þessi Guðmundur Rafn sem bauð sig fram til forseta, gerir hann berlega grein fyrir sjálfsímynd sinni, kannski einum of berlega. Þótt hann sé maður hógvær og af hjarta lítillátur verður ekki annað séð en hann njóti þess að standa í sviðsljósinu. Og hann telur að þjóðin muni fá góðan leiðtoga þar sem hann sé. Engum getum skal að því leitt hér og nú hvort bók þessi muni greiða götu Guðmundar Rafns næst þegar hann býður sig fram. Á kápunni gefur að líta stillilega mynd af honum sjálfum þar sem hann hallar höfði að hnettinum jörð meðan vetrarbrautin hringsólar yfir höfði hans. Hvorutveggja mun ætlað að lýsa eðli hans og ætlunarverki: Annars vegar jarðsambandið klárt. Þar fyrir ofan hugsjónirnar háu. Erlendur Jónsson Guðmundur Rafn Geirdal