EMBÆTTISMANNANEFND á vegum finnska utanríkisráðuneytisins lagði í vikunni til að Finnar breyttu landvörnum sínum til þess að geta undirritað Ottawa-samkomulagið um bann við jarðsprengjum. Finnar eru eina Evrópusambandsþjóðin sem hefur neitað að undirrita samkomulagið.
Finnar athuga bann við jarðsprengjum

Helsingfors. Morgunblaðið.

EMBÆTTISMANNANEFND á vegum finnska utanríkisráðuneytisins lagði í vikunni til að Finnar breyttu landvörnum sínum til þess að geta undirritað Ottawa-samkomulagið um bann við jarðsprengjum. Finnar eru eina Evrópusambandsþjóðin sem hefur neitað að undirrita samkomulagið.

Ástæðan fyrir tregðu Finna er aðallega löng austurlandamæri landsins. Þegar fámenn þjóð býr í strjálbýlu landi getur verið erfitt að senda nægan mannafla til að verja landamærin og jarðsprengjur hafa þótt ódýr lausn á vandamálinu.

Nefndin leggur nú til að hátt í fimm milljörðum finnskra marka (þ.e. rúmlega 60 milljörðum króna) verði varið til að kaupa vopnakerfi sem leyst gætu jarðprengjurnar af hólmi. Áætlar nefndin að þessar breytingar verði um tíu ár í framkvæmd.

Gætu undirritað samninginn árið 2006

Tarja Halonen, utanríkisráðherra Finna, segist ákveðin að koma málinu í framkvæmd strax eftir áramót. Nái málið fram að ganga telur Halonen líklegt að Finnar geti undirritað Ottawa-samninginn árið 2006. Þá yrðu síðustu jarðsprengjurnar horfnar úr vopnabúri landsmanna árið 2010.

Undirstrikar Halonen að þetta frumkvæði sé pólitískt en ekki hernaðarlegt. Staða Finna í Evrópusambandinu er orðin nokkuð erfið eftir í ljós kom að mun fleiri þjóðir undirrituðu Ottawa-samninginn en búist hafði verið við.

Finnska þingið hefur nýlega samþykkt heildaráætlun um landvarnir fyrir næstu árin. Í henni voru jarðsprengjur ekki einu sinni nefndar því þær hafa þótt undirstöðuatriði í landvörnum. Nú verður herinn að fá aukafjárveitingar til að skipta jarðsprengjunum út fyrir aðrar tegundir landvarna.