VIÐBRÖGÐ fjölmiðla í Íran við boði Bills Clintons Bandaríkjaforseta um "einlægar" viðræður við Írani voru blendin í gær. Á óvenju löngum blaðamannafundi sem forsetinn hélt í fyrrakvöld sagði hann að bandarísk stjórnvöld hygðust endurskoða samskiptin við Írani.
Clinton Bandaríkjaforseti býður Írönum til viðræðna

Blendin viðbrögð í Teheran

Teheran, Washington, Baghdad. Reuters.

VIÐBRÖGÐ fjölmiðla í Íran við boði Bills Clintons Bandaríkjaforseta um "einlægar" viðræður við Írani voru blendin í gær. Á óvenju löngum blaðamannafundi sem forsetinn hélt í fyrrakvöld sagði hann að bandarísk stjórnvöld hygðust endurskoða samskiptin við Írani.

Í ræðu sinni brást Clinton við yfirlýsingu Mohammads Khatami, forseta Írans, frá því á sunnudag þar sem hann lýsti yfir vilja til að bæta samskipti Írana og Bandaríkjamanna. Bauð Clinton Írönum að ganga til viðræðna án þess að leggja jafnframt fram kröfu um að þeir létu af andstöðu sinni við friðarsamninga Ísraela við nágrannaþjóðir sínar. Hins vegar sagðist hann biðja Írani eins og aðrar þjóðir að láta af stuðningi sínum við hryðjuverkamenn.

Bauð Bandaríkjaforseti Írönum til viðræðna, líkt og Kínverjum fyrr á árinu. "Ég held að við verðum að geta rætt þessa hluti til að geta átt einlægar viðræður, rétt eins og við höfum rætt af einlægni við Kínverja. Við þurfum ekki að vera sammála um allt. En menn verða að geta rætt saman af einlægni, jafnvel þegar þeir eru ósammála."

Sagðist Clinton vona að takast mætti að brúa þá gjá sem væri milli þjóðanna og að mögulegt yrði að ríkin tækju upp viðræður um nálgun og samstarf. Engar ákvarðanir hefðu þó enn verið teknar en honum þætti það miður að Bandaríkin og Íranir störfuðu ekki saman. "Vera kann að í fyrsta sinn frá árinu 1979 sé við völd [í Íran] leiðtogi sem hefur áhuga á þessu . . . Úrslitaspurningin er hins vegar hvort Khatami forseti hefur einnig vald til að koma að [samninga]borðinu," sagði Clinton.

Viðbrögð dagblaða í Íran við ræðu Clintons voru blendin. Eitt þeirra ítrekaði að Bandaríkin væru enn "höfuðóvinur" írönsku þjóðarinnar og sagði Bandaríkjamenn ekki hærra setta en aðra og að þeir gætu ekki "fyrirskipað öðrum þjóðum um hvað þær eigi að gera og hvernig þær eigi að velja sér vini og fjendur". Ríkisútvarpið og sjónvarpið sögðu hins vegar frá tilboði Clintons án þess að lagt væri mat á það.

Clinton til Bosníu

Á blaðamannafundinum kvaðst Clinton myndu tilkynna fyrir sunnudag hvort dvöl bandarísks herliðs í Bosníu yrði framlengd en samkvæmt núgildandi umboði NATO á alþjóðagæsluliðið að halda heim í júní. Clinton heldur til Bosníu á sunnudag í stutta heimsókn til bandarískra gæsluliða en talið er fullvíst að dvöl þeirra verði framlengd.