FRANSKA stjórnin skarst hvað eftir annað í leikinn til að tryggja frönskum framleiðendum pantanir á kostnað hollenzku Fokker-flugvélaverksmiðjanna, sem nú eru gjaldþrota, að sögn hollenzka sjónvarpsins.
Grófu Frakkar undan Fokker?

Amsterdam. Reuters.

FRANSKA stjórnin skarst hvað eftir annað í leikinn til að tryggja frönskum framleiðendum pantanir á kostnað hollenzku Fokker-flugvélaverksmiðjanna, sem nú eru gjaldþrota, að sögn hollenzka sjónvarpsins.

Því var haldið fram í sérstökum sjónvarpsþætti að Frakkar hefðu margoft hrifsað mikilvægar pantanir frá Fokker með því að beita aðferðum, sem kynnu að brjóta í bága við samkeppnisreglur ESB.

Í þættinum voru sýnd skjöl, sem þóttu sanna að Frakkar hefðu í einu tilfelli samþykkt að afskrifa víetnamska skuld gegn því að víetnamska flugfélagið keypti franskar skrúfuþotur í stað Fokker-flugvéla, sem stjórn félagsins hefði haft hug á.

Sérfræðingur í evrópskum lögum sagði í sjónvarpsþættinum að þetta mætti túlka sem ríkisstuðning, er leiddi til óeðlilegrar samkeppni samkvæmt samkeppnisreglum ESB.

Hollendingar munu mótmæla

Frits Bolkestein, leiðtogi Frjálslynda flokksins (VVD) sem á aðild að núverandi samsteypustjórn í Hollandi, sagði að Hollendingar ættu þegar í stað að bera fram harðorð mótmæli vegna málsins.

"Við þurfum að vera vel á verði gegn svona löguðu og verðum að taka hart á þessu í framkvæmdastjórn ESB," sagði hann í sjónvarpsþættinum. Og einnig í tvíhliða samskiptum hlutaðeigandi ríkja."

Hann sagði að hvetja ætti skiptaráðendur Fokkers til að fara í skaðabótamál gegn frönskum stjórnvöldum.