Opið alla daga frá 11­18 Til 21. desember. Aðgangur 300 kr. YFIRSKRIFT sýningarinnar "Ný aðföng" er ekki líkleg til að vekja mikla eftirvæntingu. Hér er sjónunum beint að starfsemi safnsins frekar en starfi myndlistarmanna.

Viðbætur við safnið

MYNDLIST

Kjarvalsstaðir

MYNDLIST

NÝ AÐFÖNG

Opið alla daga frá 11­18 Til 21. desember. Aðgangur 300 kr.

YFIRSKRIFT sýningarinnar "Ný aðföng" er ekki líkleg til að vekja mikla eftirvæntingu. Hér er sjónunum beint að starfsemi safnsins frekar en starfi myndlistarmanna. Það læðist að manni sá grunur að aðstandendur Kjarvalsstaða líti á sýninguna bæði sem skyldu (sýna almenningi fjárfestingar safnsins) og uppfyllingu (í jólamánuðinum þegar fáir gefa sér tíma til að þeytast á sýningar).

Kjarvalsstaðir eru sá þáttur í starfsemi Listasafns Reykjavíkurborgar sem er mest áberandi og gegnir því hlutverki að vera almennur sýningarsalur, sjá um sýningar á verkum Kjarvals, hafa umsjón með og sýna listasafn borgarinnar, þar á meðal Erró safnið, og svo má ekki gleyma byggingarlistasafninu. Þáttur listasafnsins er kannski sá sem verður mest útundan, því miður, því borgin á veglegt og gott safn af íslenskri nútímalist. Væntanlega verður vegur safnsins meiri í fyrirhuguðu safnahúsi í Hafnarhúsinu. En þá verður líka að standa öðruvísi að málum. Ég er ansi hræddur um að safnið verði dauflegt ef ekki verður beitt meira hugmyndaflugi en gert er hér.

Það má til sanns vegar færa að verkin eru mörg hver ágæt og kennir þar ýmissa grasa. Alls eru verkin 40, og þar af tvær myndraðir. Elsta verkið er líklega eftir Kristínu Jónsdóttur frá 1938 af Laufásveginum, séð í átt til Bláfjalla, sýnist mér. Tvö málverk og ein vatnslitamynd eftir Kjarval, teljast varla til mikilla tíðinda. Þarna er líka að finna verk eftir abstraktkynslóðina, Þorvald Skúlason, Guðmundu Andrésdóttur, Hafstein Austmann, og ansi gott málverk eftir Kristján Davíðsson. En þó er líklega mestur fengur að þrískiptu verki eftir Hörð Ágústsson, frá 1979, þegar hann var á límbands-tímabilinu og sýndi einmitt á Kjarvalsstöðum, ef ég man rétt. Flest eru verkin þó eftir kunnuglega listamenn, sem hafa verið áberandi í sýningarsölum borgarinnar á undanförnum árum. Ég ætla mér ekki að tíunda kosti og galla einstakra verka úr þeirra hópi hér. Ef leggja ætti dóm á það hversu vel hefur tekist til við innkaup á myndlist á síðustu misserum þyrfti helst að skoða þau í samhengi við eign safnsins, sem fáir hafa nokkra yfirsýn yfir.

Það er áberandi lítið af verkum eftir unga og minna þekkta myndlistarmenn. Þó eru þarna þrjú skemmtileg málverk eftir Jóhann Torfason, þar sem gert er góðlátlegt gys að þjóðarrembingi íslendinga, eins og í "Góðar vættir", signerað "H. Artmann", þar sem vættunum úr skjaldarmerkinu bregður fyrir í nýjum búningi. Safnið verður að taka áhættu þegar kemur að yngri listamönnum, sem ekki hafa öðlast almenna viðurkenningu, því það er ekki aðeins hlutlaus áhorfandi að því sem fram fer í okkar litla listheimi, það er líka þátttakandi.

Hvernig skyldi annars standa á því að það eru engin skúlptúrverk meðal nýrra aðfanga? Eru þau of dýr, of plássfrek? Hefur borgin sett upp útilistaverk einhvers staðar í borginni sem vert var að minnast á? Eina verkið sem er ekki hengt upp á vegg er leirker eftir Rögnu Ingimundardóttur, sem er ágætt verk út af fyrir sig. En myndhöggvarar, m.a. Jón Gunnar Árnason og Kristinn E. Hrafnsson, fá aðeins inngöngu með litlar innrammaðar myndir.

Listaverkagjöf bandaríska listamannsins Larrys Bells er talsvert áberandi, en myndröð hans telur samtals 145 smámyndir. En því miður fyrir safnið er þetta verk alls ekki dæmigert fyrir þau verk sem hann er þekktur fyrir. Ekki má gleyma athyglisverðum teikningum nokkurra íslenskra arkitekta, þar á meðal Rögnvalds Á. Ólafssonar, sem kallaður hefur verið fyrsti íslenski arkitektinn. Sérstaka athygli vekur lokaverkefni Hannesar Kr. Davíðssonar frá skóla í Danmörku, sem hann vann í stríðslok 1944-45, í hámódernískum anda.

Sýningunni fylgir engin sýningarskrá, umfjöllun um verk eða upplýsingar, aðrar en þær sem rúmast á miðanum við hliðina á verkunum. Listamenn hafa komið og rætt um list sína, sem er ágæt hugmynd, en það er ekki hægt að láta listamennina alfarið sjá um að verk þeirra séu meira en númer og nafn í skrá safnsins.

Gunnar J. Árnason

"GÓÐAR vættir" eftir Jóhann Torfason.